Þvílíkur dagur í gær! Loksins var veðrið svona að einhverju leyti í lagi og við nýttum það svo sannarlega eins og hægt var.

Eftir hefðbundinn morgun og hádegismat, fiskibollur, hrísgrjón og grænmeti, var stelpunum smalað saman inn í matsal þar sem þær fóru í vesti og fengu blöð og penna og svo var lagt af stað í ratleik sem taldi tólf skemmtilegar stöðvar sem dreift var um svæðið. Í ratleiknum svöruðu þær spurningum, leystu þrautir og sömdu ljóð. Öll herbergi stóðu sig vel og skemmtu sér vel og unnu vel saman.

Eftir kaffi þar sem boðið var upp á pítsasnúða og bananaskúffuköku var ýmislegt skemmtilegt í boði. Allar stelpur fóru annað hvort í heita pottinn eða sturtu og svo gerðu herbergin bæði brjóstsykur og kókoskúlur. Skógarver æfði atriði fyrir kvöldvökuna og inn á milli var tími til að gera perluvinabönd og dunda sér aðeins. Það var verulega hlýtt í veðri og logn og þó að inn á milli rigndi eins og hellt væri úr fötu voru þó nokkrar sem völdu að skella sér aðeins út í rigningaleiki.

Í kvöldmat var boðið upp á tómatsúpu og quesadillas og svo var haldið á kvöldvöku. Í lok kvöldvöku ruddist inn óvæntur gestur! Var þar kominn foringi sem hafði brugðið sér í líki mömmu Villa (úr leitinni að Villa). Hún lýsti því hvernig Villi og vinir hennar Sveppi og Gói væru týndir og stelpurnar þyrftu að aðstoða við að finna hann. Í lýsingunum fólust leiðbeiningar um fígúrur í skóginum sem gætu aðstoðað þær og aðrar sem þær þyrftu að passa sig á. Hófst svo klukkutíma langur eltingaleikur um allan skóg. Allt starfsfólk tók þátt í leiknum en erfiðasta hlutverkið fengu líklega þeir foringjar sem tóku að sér að elta stelpurnar og fanga þær áður en þær næðu að finna Villa.

Þegar leikurinn var blásinn af var Villi enn ófundinn en hins vegar var búið að dúka upp í matsalnum fyrir vöfflur með rjóma og heitt kakó. Villi fannst reyndar áður en við byrjuðum að borða, bundinn í uppþvottarýminu, en við tók svo notaleg kaffihúsastund fyrir svefninn. Lesin var saga sem minnti á mikilvægi þess að þakka fyrir allar gjafir okkar í lífinu og svo fóru allar í háttinn. Þær sofnuðu vissulega aðeins seint en það var sko vel þess virði. Við fengum yndislega fallegt sumarkvöld til að hlaupa og skemmta okkur og óviðjafnanlegt sólarlag út um gluggana í matsalnum á meðan við drukkum kakóið. Það var kominn tími á svona ekta sumarupplifun eftir alla bleytuna.

Ásta Sóllilja, forstöðukona.