Dagurinn í gær var veisludagur. Síðasti heili dagurinn okkar hér. Við byrjuðum hann með hefðbundnum hætti og á morgunstundinni fórum við yfir mikilvægi þess að vera sá sem hjálpar og stendur með þeim sem á því þurfa að halda. Talað var út frá dæmisögunni um miskunnsama samverjan.
Eftir hádegismatinn, pastasalat með skinku, fóru stelpurnar í gönguferð niður að á. Það var kannski ekki mikil sól en hins vegar var hlýtt og milt veður og kominn tími til að stinga tánni í ána. Þær skemmtu sér konunglega! Komu allar meira og minna rennandi blautar en kátar heim.
Eftir kaffi tók svo við frjáls tími þar sem pottarnir voru opnir, boðið var upp á spa-stund í kvöldvökusalnum og allar tóku sér tima í að gera sig tilbúna fyrir veislukvöldið. Síðan var blásið til veislu. Boðið var upp á Ölvers pítsur í fallega skreyttum matsalnum og smákökur í eftirrétt. Teknar voru myndir af herbergjunum með bænakonunum sínum og eftir kvöldvökuna tók svo við kvöldvaka af bestu sort þar sem foringjarnir tóku að sér að skemmta börnunum með skemmtilegum og bráðfyndnum leikritum. Kvöldvakan var löng og foringjarnir tóku sér svo góðan tíma í spjall inni á herbergjum svona síðasta kvöldið. Það voru loks örþreyttar en sælar stelpur sem sofnuðu við gítarspil og fallegan og rólegan söng af svefnherbergisganginum. Ég verð alltaf jafn glöð að fylgjast með þessum ungu konum sem hér starfa og sinna börnunum af alúð og natni, mæta þörfum þeirra og væntingum í gleði og eru svo sannarlega að starfa í sumarbúðunum okkar af hugsjón.
Í dag var lítið annað gert en að pakka og græja sig af stað. Það var jú reyndar úrslitaleikur í brennókeppninni og brennóleikur við foringja og svo héldum við lokastund með verðlaunaafhendingu eftir allar keppnir vikunnar. Kveðjustundin var erfið fyrir sumar eftir dásamlega daga og ekki laust við að nokkur tár hafi dropið á kinnar í einhverjum hópum.
Við hlökkum til að hitta þessar flottu stelpur aftur næsta sumar og ég þakka fyrir traustið sem okkur er sýnt að fá að hugsa um þær þessa örfáu daga. Algjör forréttindi <3
Ásta Sóllilja, forstöðukona.