Í Ölver er mættur frábær hópur af skemmtilegum og fjörugum stelpum, ásamt frábæru og vel reyndu starfsfólki. Hér ríkir góð stemmning og margir Ölvers reynsluboltar sem eru að taka vel á móti þeim sem eru nýjar.

Þegar komið var upp í Ölver var byrjað á því að kynna stelpurnar fyrir staðnum, starfsfólki og helstu reglum. Næst var þeim svo skipt í herbergi, og var að sjálfsögðu tryggt að vinkonur væru saman í herbergi. Svo komu þær sér fyrir í herbergjunum og síðan var boðið upp á skyr og pizzabrauð í hádegismat.

Eftir hádegismatinn var svo farið í gönguferð um útisvæðið okkar og teknir nokkrir samhristingsleikir til að kynnast betur stelpunum.

Í kaffitímanum var svo boðið upp á dýrindis bananabrauð og ljúffeng jógúrtkaka með súkkulaðibitum.

Í vikunni er ekkert sérlega frábær veðurspá (klassískt íslenskt sumarspá), en á komudegi þá lét sólin aðeins sjá sig og því fóru stelpurnar eftir kaffitímann niður að á sem er hér skammt frá Ölveri. Þar fóru margar og vöðuðu í ánni á meðan aðrar reyndu að ná smá lit;) Þær skemmtu sér vel og nutu smá sólar!

Í kvöldmatinn var hakk og spaghetti, stelpurnar borðuðu mjög vel og voru mjög ánægðar með matinn! Eftir kvöldmat er svo alltaf svokölluð kvöldvaka hér í Ölveri, þar sem við syngjum saman, ýmis atriði og að lokum sögð stutt hugleiðing. Stelpurnar syngja ótrúlega fallega og mjög gaman að syngja með þeim.

Hér í Ölveri ríkir sú hefð að hvert herbergi fær sína bænakonu, þ.e. sinn foringja sem fer inn í herbergi til þeirra öll kvöld, fer í leiki, spjallar við þær, segir skemmtilegar sögur, syngur og hjálpar þeim að koma sér í ró. Þegar stelpunum var hleypt niður í kvöldkaffi af kvöldvöku fengu þær þau skilaboð að koma sér allar inn í herbergi og bíða eftir vísbendingu um hver væri bænakonan þeirra. Þegar þær höfðu fengið sína vísbendingu þá hlupu þær út í leit að sinni bænakonu. Allar bænakonurnar höfðu nefnilega hlupið út í felur! Þegar allar höfðu fundið sínar bænakonur, komu þær aftur inn í herbergin sín til að eiga notalega stund fyrir svefninn.

Mikil spenna var í hópnum í lok dags og fóru þær sáttar á koddann. Mikill æsingur í húsinu til að byrja með en svo kl.23:00 var komin ró á allt húsið, og stelpurnar voru ótrúlega duglegar að fara að sofa! Hlakka til að kynnast þessum flottu stelpum betur og lenda í ýmsum ævintýrum með þeim!

Bestu kveðjur úr Ölveri. Fylgist endilega með myndum á myndasíðunni okkar!

Kristrún Lilja, forstöðukona