Hingað í Ölver komu í morgun 47 afskaplega hressar og kraftmiklar stelpur og ekki síður kraftmikið starfslið. Ölver tók á móti öllum með logni og mildu veðri og þegar líða tók á daginn fór sólin meira að segja að skína á okkur. Allar vorum við þakklátar fyrir góða veðrið og hlýindin því þetta er orkumikill hópur sem hefur mikinn áhuga á hvers konar útiveru virðist vera. Það veit á gott fyrir komandi daga. 🙂

Eftir að búið var að skipa öllum í herbergi og rúm og búa um alla fengu stelpurnar hakk og spagettí í hádegismatinn. Eftir matinn var svo farið í hina klassísku fyrsta-dags-göngu þar sem foringjarnir ganga með hópinn um svæðið og sýna þeim allt það besta og skemmtilegasta sem Ölver hefur upp á að bjóða, segja flökkusögur af fígurunum í klettunum hér fyrir ofan, kenna undirstöðurnar í brennó, og brjóta ísinn milli ókunnugra með skemmtilegum leikjum niðri á flöt. Eftir gönguna var því nýbakað kaffibrauðið velkomið í svanga maga.

Eftir kaffitíma var svo top-model keppni flokksins. Í þeirri keppni reynir strax á samvinnu, sköpun, sáttfýsi og virðingu þegar nýir herbergisfélagar vinna saman við að skapa „outfit“ á módelið sem þær hafa valið úr sínum röðum. Til þess má nota það sem til er í farangri þeirra eða úti í náttúrunni en einnig verða þær að notast við ýmsan skemmtilegan búnað sem þær kannski hefðu ekki venjulega valið í tískusýninu (plastpoka, límband, bandspotta o.s.fv.) Módelin í þessum flokki voru stórkostlega litrík og glæsileg og greinilegt að það vantar ekki sköpunarkraftinn í þennan hóp.

Eftir þessa keppni voru opnaðar ýmsar stöðvar bæði úti og inni, margar völdu að fara í fótbolta, sumar lituðu eða gerðu vinabönd og aðrar voru úti í frjálsum leik í fallegu náttúrunni hér á þessum dásamlega stað. Allir sem vildu fengu að fara í pott og sturtu og margar völdu að baða sig aðeins og hafa það huggulegt.

Eftir kvöldmat (grænmetisbuff og kúskús) buðu foringjarnir upp á skemmtilega kvöldvöku og í lok hennar settist ég niður með stelpunum og hvatti þær til að nota tímann sinn hér vel. Tíminn fjarri hversdeginum, hraðanum, tækninni og annríkinu í þessari fallegu náttúru er dýrmætur og mikilvægt að nota hann bæði til að hafa það skemmtilegt í góðra vina hópi en líka til að kyrra hugann og draga andann djúpt og finna allt það góða sem Ölversupplifunin gefur. Þakklæti fyrir sköpunina, öryggið og fallegt umhverfi, vináttu, kærleika, gleði og fjör, aukið sjálfstraust og styrk, ró… Vonandi nýta þær stundum tækifærið í öllu fjörinu til gefa þessum hlutum gaum.

Ég er spennt að kynnast þessum frábæra stelpnahópi betur og þakklát fyrir að fá að vera hér og taka þátt i upplifuninni með þeim.

Endilega fylgist með okkur á instagram og facebook. Svo birtast nýjar myndir á flickr síðunni okkar alla morgna.

Ásta Sóllilja, forstöðukona