Gærkvöldið endaði aldeilis á ævintýri þegar herbergin fóru öll út í skóg með fjársjóðskort til að finna sína bænakonu. (Bænakonur eru þeir foringjar sem fara inn á herbergi stelpnanna á kvöldin og lesa og spjalla og koma öllum í ró). – Það lengdi aðeins kvölddagskránna, sem er nú oft ágætt svona fyrsta kvöldið, en allar sofnuðu þær nú á endanum og vöknuðu úthvíldar og kátar kl. 09.00 í morgun.
Dagurinn í dag var kannski ekki sólríkur en hann var sannarlega fallegur og mestmegnis þurr. Morgundagskráin var hefðbundin fyrir Ölver. Við buðum upp á ýmsa kosti í morgunmat og eftir það var fánahylling. Að fánahyllingu lokinni fóru allar á fullt í herbergjatiltekt enda hegðunarkeppnin á milli herbergja komin á fullt og þar reynir meðal annars á snyrtimennsku. Eftir tiltektina var blásið í morgunstund. Á morgunstundinni sagði ég stelpunum söguna af henni Kristrúnu Ólafsdóttur okkar, frumkvöðli og fyrirmynd, sem fylgdi köllun sinni um að stofna sumarbúðir fyrir stelpur og keypti Ölver undir þá starfsemi árið 1953. Við ræddum það hversu mikilvægt það er að fylgja draumunum sínum eftir og þora að treysta Guði og fyrirætlunum hans. – Svo fór brennókeppnin af stað! – Brennókeppnin er liðakeppni sem er í gangi alla vikuna og mér skilst að það stefni í æsispennandi keppni í þessum flokki.
Eftir hádegismatinn (pastasalat sem þær settu sjálfar saman) var farið í gönguferð niður að á. Sumar voru extra hugrakkar og bleyttu tásurnar aðeins í ánni en aðrar létu nægja að fara bara í leiki og njóta útiverunnar. Í kaffitímanum var boðið upp á volg skinkuhorn og jógúrtköku.
Ölversleikar 3. flokks 2025 tóku svo við. Þar kepptu herbergin sín á milli í Ölvers-iþróttum. Keppt var t.d. í rúsínuspýti, sippi, stígvélasparki, lautarhlaupi, ljóðagerð og furðuveru. Myndir af þessu ættu að vera komnar á netið í fyrramálið.
Nú eru allar stelpurnar í matsalnum að gæða sér á regnbogagrjónagraut og smurðu brauði. Þær eru búnar að fara í heita pottinn og sturtu sem vildu það og Fuglaver og Skógarver búnar að æfa leikrit fyrir kvöldvökuna. Stelpurnar vita það ekki enn en að kvöldvöku lokinni stendur til að bjóða upp á náttfatabíó og popp. Kannski munu ekki allar hafa áhuga á því og því verða einhver borðspil í boði í matsalnum og ég er viss um að stemmningin í húsinu verður góð enda hópurinn einstaklega jákvæður og skemmtilegur.
Ég hlakka til að segja frá morgundeginum því þá stendur mikið til!
Ásta Sóllilja, forstöðukona.