Í dag var veisludagur! Síðasti heili dagurinn í þessum flokki og spennustigið alveg eftir því. Mikið stuð, ærslagangur og gleði, bæði í börnum og foringjum!
Stelpurnar fengu að sofa hálftíma lengur eftir kvöldbröltið allt í gær (og við líka) og það var aldeilis kærkomið fyrir alla. Eftir morgundagskránna (morgunmatur, fánahylling, tiltekt, morgunstund og brennó) fengu stelpurnar fisk í raspi og kartöflubáta í ofni. Við erum alltaf jafnhissa í hverjum matartíma hversu mikið þessi hópur borðar og fiskmáltíðin var engin undantekning. Ótrúlega gaman að sjá þær taka svona vel til matar síns!
Eftir hádegismat var blásið í ævintýraleik! Ævintýraleikur í Ölveri er eins konar eltingaleikur á sterum. Börnin hlaupa og á eftir þeim eru ýmsar fígúrur og í skóginum eru þrautir sem þær þurfa að leysa. Þátttakendur í leiknum í dag voru 4 köngulóarmenn, 1 brjálaður vísindamaður, 1 superman-kýr og 1 batman og það var sko gríðarlegt stuð.
Eftir veislukaffi var boðið upp á ýmsar stöðvar í húsinu. Potturinn var opinn og allar fóru í pott eða a.m.k. sturtu til að koma hreinar heim. Í stofunni fór fram vinabandagerð og foringjarnir buðu upp á fléttur og í matsalnum var í gangi brjótsykursgerð auk þess sem margar völdu að mála steina sem þær höfðu týnt í gönguferðinni að ánni um daginn. Það var því nóg um að vera í Ölveri í dag og allar gátu fundið verkefni við hæfi. Það skiptust vissulega á skin og skúrir í veðrinu en sólin lét oft sjá sig og þá voru stelpurnar alltaf roknar út í leik.
Klukkn 19.00 mættu allar prúðbúnar, nýbaðaðar og greiddar í fallegan skreyttan matsalinn og við hófum veislukvöldið. Að venju var boðið upp á hina sívinsælu Ölverspítsu í veislukvöldmatinn og rice krispies í eftirrétt. Svo hófst kvöldvaka þar sem foringjarnir létu ljós sitt skína í bráðfyndum leikritum.
Þetta var líflegur og skemmtilegur dagur í sumarbúðunum og má gera ráð fyrir að það verði þreytt en sæl börn sem fara héðan á morgun.
Morgundagurinn mun að einhverju leyti litast af frágangi og pökkun. Þó verður tími fyrir síðustu morgunstundina, foringjabrennóinn (þar sem sigurlið flokksins þarf að etja kappi við foringjana), pylsugrill í hádeginu og svo auðvita verðlauna og lokastund!
Rútan fer svo héðan kl. 14:00 á morgun og verður komin á Holtaveg 28 kl. 15:00. Þau börn sem verða sótt í Ölver þarf að sækja fyrir kl. 14:00.
Ég get ekki annað en þakkað fyrir mig og fyrir tækifærið til að kynnast þessum kraftmikla hóp. Það eru 30 ár síðan ég vann fyrsta sumarið mitt hér í Ölveri og hér hefur hjartað mitt slegið síðan. Starfið hérna hefur auðvitað tekið breytingum með tímanum en sumt hefur þó lítið eða ekkert breyst og það mikilvægasta alls ekki. Hér er ennþá kærleiksríkt og duglegt starfsfólk sem lætur sig það varða að börn fái að upplifa að þau skipti máli, að þau séu séð, að þau geti treyst og séu bæði tíma og krafta okkar virði. Ég vona að allar stelpurnar fari heim með þá vitneskju í hjartanu að þær skipti máli, hafi tilgang og hlutverk í samfélaginu og að þær séu aldrei einar, hvorki í gleði né sorgum.
Ásta Sóllilja, forstöðukona.