Í gær var hafragrauturinn í miklu uppáhaldi í morgunmatnum. Eftir fánahillingu ræddum við um Guð sem vegvísi, skrifuðum í tilfinningadagbækurnar, og sungum saman á biblíulestrinum. Stelpurnar fengu grjónagraut í hádegismat og fóru svo í göngu að ánni hér í nágreninu. Þær höfðu spurt mikið um hvort við færum ekki örugglega að ánni, svo þetta gladdi margar og fengu þær að busla sem vildu.
Í kaffi voru Ölversbollur og súkkulaðibitakökur. Næst fóru þær út, niður í laut og inn í skóg og áttu hver að gera sitt listaverk úr því sem þær fundu. Síðan hittumst við allar í litlulaut og bjuggum saman til náttúru altari úr listaverkunum okkar. Þar settumst við og mynduðum þakklætishring við altarið og sögðum allar hvað við vorum þakklátar fyrir, og sungum svo saman lagið „Þakkir fyrir hvern fagra morgun“.
Þær fengu kornflexkjúkling og franskar í kvöldmat og fóru svo upp á kvöldvöku. Þar sáu stelpurnar aftur um skemmtiatriði kvöldsins og fjallað var svo um mikilvægi þess að koma vel fram við nágungan og dæmisaga fylgdi. Þaðan var haldið út og fundu þær foringja hoppandi um, klædda sem sykurpúða. Þá grilluðum við sykurpúða við söng og gítarleik og þetta fannst þeim mjög kósý. Það var svo gott að vera úti að hlægja, chilla, og spjalla svona rétt fyrir svefn í fersku lofti.