Yndislegur hópur sem mætti í Ölver í gær, skemmtilegar og hressar stelpur. Í Ölveri er líka frábært starfsfólk með mikla og dýrmæta reynslu af sumarbúðastarfi.  Þegar búið var að úthluta herbergjum komu stelpurnar sér fyrir og síðan var blásið til hádegisverðar, skyr og brauð og tóku þær vel til matar síns.

Eftir hádegismatinn fór hópurinn í gönguferð um svæðið sem er einstaklega skemmtilegt og fjölbreytt en hægt er að fara út í skóg, í lautina, á fótboltavöllinn og leikvöllinn svo eitthvað sé nefnt. Gönguferðin var brotin upp með ýmsum leikjum og má þar nefna hlaup í skarðið, stórfiskaleik, nafnaleik o.fl. sem er gott til að hrista hópinn saman. Síðan lærðu stelpurnar brennó en sá leikur skipar mikinn sess hjá okkur í Ölveri. Veðrið lék við okkur í gær og eftir kaffitímann voru haldnir hinir vinsælu Ölversleikar þar sem þær sem eru saman i herbergi vinna saman að hinum ýmsu verkefnum. Síðan tók við frjáls tími sem er ekki síður mikilvægur. Gaman að sjá hve margar leggja uppúr því að gera herbergin kósý og notaleg.

Í kvöldmat var steiktur fiskur og kartöflur og var tekið hressilega til matar síns. Á kvöldvökunni sýndu aðstoðarforingjar leikrit, sungin voru lög en svo kom að því að forstöðukonan rak foringjana út því hún vildi vera ein með stelpunum. Við ræddum saman um mikilvægi þess að markmið okkar sé að öllum líði vel hér í Ölveri, hvernig sé gott að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur og síðan las forstöðukona sögu um óskirnar 10. Það var ekki komið til af illu að forstöðukonan rak foringjana út heldur þurftu þær tíma til að fela sig úti því komið var að hinni vinsælu bænakonuleit.

Stelpurnar stukku af stað og herbergisfélagar hjálpuðust að við að finna sína bænakonu. Bænakonur eru dýrmætar stelpunum hér í Ölveri því þær hjálpa til við að koma öllum í ró fyrir nóttina, spjalla við stelpurnar, lesa fyrir þær og biðja. Það var áskorun fyrir einhverjar að sofna á nýjum stað en allt hafðist þetta að lokum og allar sváfu vel þar til þær voru vaktar klukkan 9 í morgun.

Í biblíulestrinum í morgun lærðu stelpurnar um sögu Ölvers og mikið sem þær eru duglegar að hlusta og eiga vel með að taka eftir ásamt því að taka þátt í umræðum.

Nú er brennó keppni Ölvers hafin og framundan er síðan hakk og spagettí í hádegismatinn. Frábært veður í dag hér í Ölveri og ætlum við að njóta þess í botn í gönguferðum og útiveru.

Þangað til næst,

Svava Sigríður Svavarsdóttir forstöðukona.