Í Ölver er mættur frábær hópur af sprækum stelpum og eðal starfslið auk mín.

Strax frá upphafi var jákvæður andi og spenningur yfir hópnum og voru þær fljótar að blanda geði við hvora aðra og kynnast. Margar þeirra eru miklir Ölvers reynsluboltar eins og oft þegar kemur að unglingaflokki en eins eru hér nokkrar sem eru að fá að upplifa dýrðina sem Ölver hefur upp á að bjóða í fyrsta sinn. Hópurinn hefur þó blandast vel og allar teknar með í fjörið, nýjar sem gamlar.

Þegar komið var upp í Ölver var byrjað á því að kynna stelpurnar fyrir staðnum, húsakynnum og útisvæði, starfsfólki, helstu reglum o.fl. Skipt var í herbergi og pössuðum við að sjálfsögðu upp á það að vinkonur fengju að vera saman í herbergi. Stúlkurnar komu sér fyrir og síðan var boðið upp á skyr og pizzabrauð í hádegismat.

Eftir hádegismat var farið í gönguferð um svæðið auk þess að brugðið var á leik með ýmsum nafna- og samhristingsleikjum til að kynnast. Það gerði akkúrat helli dembu í miðjum leik en stelpurnar létu það ekkert á sig fá og áður en við vissum af fór sólin að glenna sig á ný og þerraði okkur.

Í kaffitíma var boðið upp á kryddbrauð og rice crispies kökur sem vakti mikla lukku!

Eftir kaffitíma var slegið til keppni milli herbergja til að hrista herbergin saman. Keppnin sem um ræðir köllum við Ölvers Top Model en í þeirri keppni fá herbergin það verkefni að útfæra búning/“look“ á einhverja úr herberginu. Vanalega fá þær ákveðinn efnivið og smá ramma utan um það sem þær eiga að gera en við ákváðum að gefa þeim aðeins lausan tauminn hvað sköpun varðar auk þess að þær höfðu val um að hafa eitt eða fleiri módel úr hópnum. Þemað sem þær áttu að fylgja var þó að skapa einhverja veru sem tilheyrði ekki okkar heimi heldur einhvers konar SciFi-, ævintýra-, furðuveru að eigin vali úr þeirra hugarheimi. Samvinnan var þvílík og hvergi bar á ósætti, allar spenntar og saman í liði við að vinna að meistaraverkinu. Útkoman var svo sýnd á tískusýningu við mikil fagnaðarlæti þar sem foringjarnir brugðu sér í gerfi og mættu á staðinn sem kynnar og dómarar. Eins kynntu stelpurnar aðeins baksögu verunnar, hvaðan hún kom o.fl. slíkt. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað hvert herbergi útfærði verkefnið á ólíkan hátt! Þvílíkt hugmyndaflug! Ég hvet ykkur til að kíkja á myndasíðuna okkar til að sjá þessi meistaraverk sem stelpurnar göldruðu fram.

Eftir Top Model gafst smá tími fyrir frjálsan tíma auk þess að stelpurnar úr Lindaveri fengu tíma til að undirbúa atriði fyrir kvöldvöku en hér í Ölveri skipta herbergin með sér kvöldunum þar sem þær sjá um að skemmta hinum stelpunum með leikritum og leikjum á kvöldvöku.

Í kvöldmat var boðið upp á grænmetisbuff og í framhaldi af kvöldmat var haldið á kvöldvöku. Eins og áður sagði var það Lindaver sem sá um skemmtiatriði en í lokin á kvöldvökum fá stelpurnar að heyra stutta hugleiðingu fyrir svefninn. Við ræddum um gullnu regluna og hvernig við getum allar lagt okkar að mörkum við að gera dvölina í Ölveri sem besta fyrir okkur allar.

Í Ölveri ríkir sú hefð að hvert herbergi fær sína bænakonu, þ.e. sinn foringja sem fer inn í herbergi til þeirra öll kvöld, fer í leiki, spjallar við þær, segir skemmtilegar sögur, syngur, les og hjálpar þeim að koma sér í ró. Þegar kvöldvakan var að klárast voru allir foringjarnir horfnir. Á skjáinn varpaði ég upp myndbandi þar sem hverju herbergi var kenndur stuttur dans. Til að komast að því hver þeirra bænakona var þurftu þær að fara út að leita og ef þær fundu einhvern foringja áttu þær að dansa sinn dans. Ef þær höfðu fundið þá réttu tók bænakonan undir og dansaði með og þær búnar að finna sína og gátu haldi saman aftur inn í hús. Ef viðkomandi foringi tók ekki undir þurftu þær að halda leitinni áfram og láta reyna á dansinn við næstu og næstu þar til sú rétta fannst. Þegar leit var lokið og inn var komið beið þeirra kvöldhressing og svo var kominn tími á að hátta, pissa og bursta og koma sér í ró.

Eftir skemmtilegan dag voru það sáttar og sælar stúlkur sem lögðust á koddann. Stúlkurnar voru misssnöggar að koma sér í ró enda mikil spenna fyrir því að vera mættar en allt hafðist það að lokum og virtust þær sofa vært í gegnum nóttina. Það er ótrúlega góður andi í hópnum og ég get ekki beðið eftir að kynnast þeim betur og sigla inn í fleiri ævintýri með þeim út vikuna.

Unnur Rún, forstöðukona.