Stelpurnar voru vaktar með tónlist kl. 9 fyrsta morguninn og höfðu þær flest allar sofið vel og næturvaktin gengið áfallalaust fyrir sig.
Í morgunmat var boðið upp á morgunkorn, súrmjólk og hafragraut. Eftir morgunmat var farið út í fánahyllingu og svo farið í hefðbundna morgundagskrá en morgnarnir í Ölveri eru yfirleitt alltaf eins. Eftir fánahyllingu hefst tiltekt og frágangur í herbergjum en í gegnum vikuna fer fram svokölluð hegðunarkeppni þar sem horft er til almennrar hegðunar, kurteisi við hvora aðra og starfsfólk, hvernig gengur að koma á ró á kvöldin (bara róin ekki hvernig gengur að sofna) og svo hvort þær haldi herbergjunum snyrtilegum. Á hverjum morgni gefst tími til að taka til áður en starfsmaður fer hringinn og lítur inn í öll herbergin. Klukkan 10:30 er svo morgunstund sem við köllum biblíulestur og að henni lokinni er haldið í brennó fram að hádegi. Á biblíulestri þennan morguninn fengu stelpurnar að heyra um Kristrúnu sem stofnaði Ölver og það hvernig þetta byrjaði allt og hver þróunin hefur verið í gegnum árin.
Í hádegismat var boðið upp á hakk og spagettí og grænmeti og borðuðu þær flestar mjög vel.
Eftir hádegismat var slegið í aðra keppni. Keppnin sem um ræðir voru svokallaðir Ölversleikar en í þeirri keppni keppa stelpurnar í hinum ýmsu furðuþrautum. Þar reyndi mikið á samvinnu, hreyfingu, hugvit, frjóa hugsun og svo mætti lengi telja. Samvinnan var góð, mikil gleði, stuð og pepp ríkti og var gaman að fylgjast með þeim takast á við ólíkar þrautir. Að auki áttu liðin að koma sér saman um eins konar „liðsbúning“ einungis úr því sem þær höfðu sjálfar meðferðist. Endilega kíkið á myndasíðuna okkar til að sjá myndir af þessari snilld! Neðst í fréttinni er hlekkur á myndasíðuna.
Í kaffinu var boðið upp á Ölversbollur og bananaköku sem rann ljúft niður. Eftir kaffi var svo boðið upp á aðeins rólegri dagskrá. Stelpunum var boðið að fara í heita pottinn en hér í Ölveri er nýlega búið að setja upp nýjan pott sem er töluvert stærri en sá gamli og okkur finnst við búa við algjöran lúxus og áttu þær margar langa og notalega stund þar. Þær sem ekki höfðu áhuga á pottinum fengu líka færi á að fara í sturtu. Samhliða pottadagskrá var boðið upp á kertamálun og VÁ, þvílík listaverk! Auk þess gafst tími fyrir frjálsan leik, kósý, spjall inni á herbergi og annað sem þeim datt í hug. Stelpurnar fóru smám saman að blandast meira í spjall óháð herbergjum og lögðu þær sig fram við að kynnast hinum enn betur.
Í kvöldmat var boðið upp á grjónagraut og smurt brauð. Eftir kvöldmat gafst svo aftur tími fyrir smá frjálsan tíma áður en haldið var á kvöldvöku. Að þessu sinni voru það stelpurnar í Hamraveri sem brugðu á leik og skemmtu hinum. Að kvöldvöku lokinni stóð til að hafa náttfatapartý en við reynum alltaf að koma þeim á óvart og reynsluboltarnir í hópnum eru farnar að þekkja öll trixin í bókinni svo við þurftum að hugsa aðeins út fyrir boxið til að rugla í þeim. Þetta kvöldið var ótrúlega stillt og fallegt veður, enn nokkuð hlýtt og mjög stillt. Ég sagði þeim því að við skyldum hittast úti á stétt og við ætluðum að fara í smá rölt og rólega stund úti í skógi. Ég sýndi þeim nýjan stíg sem við erum að vinna í að grysja og merkja og svo stöldruðum við við í litlum lundi sem við köllum Bænalund. Þar spjallaði ég aðeins við þær um hvað við lifum hröðu og tæknivæddu lífi og hvað sé hollt og gott að staldra aðeins við og eiga rólegar stundir og fara út í náttúruna. Við ræddum aðeins núvitund, æfðum okkur að vera í augnablikinu og taka eftir því sem við fundum fyrir og heyrðum í nattúrunni. Þegar aðeins var liðið á þessa stund mættu tvær af foringjunum og leystu upp stundina með tónlist og stuði þar sem nú væri komið að náttfatapartýi. Stelpurnar virtust sumar vel ringlaðar yfir þessu rugli í okkur og tókst okkur því vel að koma þeim á óvart. Við byrjuðum partýið aðeins úti í skógi en héldum svo aftur inn í hús í „allir dansa kónga“-halarófu. Við héldum upp í kvöldvökusal þar sem náttfatapartýinu var haldið áfram og VÁ, þvílíkt stuð. Það var ekkert smá sem var dansað og sungið! Í lokin léku foringjar leikrit og fengu stelpurnar frostpinna til að gæða sér á á meðan. Eftir allt fjörið biðu þeirra bananar og lummur í kvöldhressingu og fóru þær svo að hátta og koma sér í ró. Bænakonurnar fóru svo inn á herbergin með sínum stelpum í smá spjall til að koma þeim almennilega í ró fyrir svefninn. Stelpurnar voru aðeins lengur að komast í ró en fyrsta kvöldið enda spennustigið rifið hátt upp í náttfatapartýinu og því töluverður galsi í þeim eins og við er að búast. Meira á morgun.
Ég minni svo aftur á myndirnar úr flokknum en þær má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720327482286/with/54649696854
Bestu kveðjur,
Unnur Rún, forstöðukona.