Stelpurnar voru vaktar með tónlist kl. 9. Þær sváfu vel og næturvaktin gekk vel.
Morguninn gekk sinn vanagang með morgunmat, fánahyllingu, tiltekt og biblíulestri. Á biblíulestri ræddum við um á hvaða grunni við viljum byggja líf okkar og áttum spjall um gildi. Þær áttu svo að velta fyrir sér hvaða gildi skipta þær máli, velja eitt og skrifa það á stein. Það var gaman að sjá hvað þær völdu sér falleg gildi og hve fjölbreytt flóran var. Þið getið séð myndir á myndasíðunni.
Eftir biblíulestur var haldið í brennó eins og vanalega og þaðan í hádegismat. Í hádegismat var boðið upp á ávaxtasúrmjólk og brauð. Eftir hádegi var svo slegið til hæfileikakeppni og VÁ! Þessar stelpur ykkar búa yfir svo miklum og fjölbreyttum hæfileikum! Við fengum að sjá spilagaldra, grínatriði, hljóðfæraleik, fimleika, söngatriði o.fl. Eins og vaninn er hér í Ölveri brugðu foringjar sér í gerfi og mættu á staðinn sem kynnir og dómarar á þessari flottu keppni.
Í kaffitíma var boðið upp á bananabrauð og smákökur. Í lok kaffitímans var tilkynnt að næst tæki við ganga og fékk sú tilkynning misgóðar undirtektir. Þetta var hins vegar allt saman gert til að hylma yfir það sem í raun var næst á dagskrá, því jú, eins og ég sagði ykkur í gær, reynum við eftir fremsta megni að koma þeim á óvart með stuði og ævintýrum. Þær útbjuggu sig því allar til að fara í göngu, í góðum skóm og klæddar eftir veðri. Þegar allur hópurinn var kominn út á stétt, klár í göngu birtist Gru (úr Minions) á svölunum fyrir ofan þær með yfirlýsingu um að ætla að taka yfir Ölver. Til að bjarga Ölveri þurftu stelpurnar að finna dætur hans, Agnesi, Edith og Margo sem faldar voru á víð og dreif í skóginum. Þetta þurftu þær að gera án þess að skósveinarnir (the minions) næðu þeim. Því braust óvænt út ævintýraeltingaleikur með Minions ívafi sem vakti töluvert meiri lukku en fjallgönguferð.
Í kvöldmat var boðið upp á pítur. Eftir kvöldmat gafst tími fyrir smá frjálsan tíma áður en haldið var á kvöldvöku. Á kvöldvökunni var það Hlíðarver sem skemmti lýðnum. Þær buðu upp á frumsamið leikrit og skemmtilegan leik. Á kvöldvökunni fengum við líka heimsókn og kynningu frá stjórn KSS en þau höfðu einnig brugðið sér í líki skósveina (minions) í leiknum. KSS stendur fyrir Kristileg skólasamtök en það er félag fyrir ungt fólk á aldrinum 14/15 ára til 20 ára. Félagið hittist öll laugardagskvöld kl. 20.30 yfir vetrartímann á Holtavegi 28 (höfuðstöðvum KFUM og KFUK). Þar er um að ræða ótrúlega skemmtileg kvöld sem í mínum huga eru að mörgu leiti framlenging á barna-, unglinga- og sumarbúðastarfi fyrir aðeins eldri krakka. Ég hvet ykkur til að skoða þetta starf með ykkar stelpum þegar þær hafa aldur til en þarna gæti verið frábær vettvangur fyrir þær að hitta aftur gamlar Ölvers vinkonur og halda þar með sambandi.
Eftir kvöldvöku buðum við upp á kósý kvölddagskrá. Í boði var pottapartý auk þess að þær sem ekki vildu fara í pottinn höfðu tök á að fara í sturtu eftir hlaupaleikinn fyrr um daginn. Einnig var í boði föndur og spjall fyrir þær sem ekki sóttu í pottapartý auk þess að þær gátu notið þess að fara frjálsar um svæðið að njóta útiveru. Það var yndislega fallegt og stillt kvöld og stelpurnar nutu sín ótrúlega vel.
Í framhaldi var svo komið að því að fara að sofa. Bænakonurnar fylgdu þeim inn og sátu með þeim um stund en svo prófuðum við að gefa þeim smá tíma til að liggja og spjalla í rólegum heitum en við höfum sjaldan rými til að leyfa það vegna mikillar kvölddagskrár og þær mikið óskað eftir að fá að spjalla inni á herbergi á kvöldin. Það gekk í raun ótrúlega vel og þær voru duglegar að fara að sofa þegar að því kom að hætta spjalli og koma almennilegri ró á húsið.
Þetta eru ótrúlega flottar stelpur sem þið eigið! Andinn í hópnum er alveg einstaklega góður og allt gengur smurt!
Ég minni svo aftur á myndirnar frá deginum en þær má finna hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720327482286/
Bestu kveðjur,
Unnur Rún, forstöðukona.