Eftir að hafa farið aðeins seinna að sofa leyfðum við stelpunum að sofa hálftíma lengur. Þegar við vöknuðum blasti við okkur þvílíkur dýrðardagur. Þegar ég opnaði hurðina út var tilfinningin eins og ég væri stödd í útlöndum. Loftið var nú þegar orðið svo hlýtt og það átti bara eftir að verða betra og betra í gegnum daginn.

Morguninn gekk sinn vanagang með fánahyllingu, tiltekt, biblíulestri og brennó. Á biblíulestri var svo settur af stað leynivinaleikur. Stelpurnar drógu hver og ein eitt nafn á stelpu í flokknum sem verður þeirra leynivinkona næstu tvo daga.

Í hádegismat var boðið upp á steiktan fisk, kartöflur og salat.

Þar sem um var að ræða einn besta dag sumarsins var ákveðið að dagskrá dagsins skyldi miða að því. Eftir hádegismat var farið í gönguferð niður að á þar sem þær gátu vaðið og baðað sig í sólinni. Þegar heim var komið beið þeirra kaffi úti á stétt. Boðið var upp á skinkuhorn og jógúrtköku.

Eftir kaffitíma var boðið upp á alls konar vatnafjör. Slip and slide braut var lögð í brekkuna niður í laut, blásið var til ýmissa íþróttakeppna þar sem þær fengu reglulega vatnsgusu yfir sig auk þess að þær gátu farið í pottinn. Þær sem ekki vildu fara í pottinn gátu farið í sturtu og huggað sig úti í sólinni með hinum þar sem búið er að byggja skemmtilegan pall í kringum nýja pottinn. Stelpurnar eru ótrúlega duglegar að dunda sér, spjalla og njóta þess að vera með hvorri annarri, þvert á herbergi, sem er mjög gaman að sjá.

Í kvöldmat var boðið upp á tortillas. Eftir kvöldmat var slegið til kvöldvöku og að þessu sinni voru þar stelpurnar í Skógarveri sem sáu um skemmtiatriði.

Í lok kvöldvöku komu foringjar inn og þóttust setja af stað ævintýragang þar sem bundið var fyrir augun á stelpunum og þær leiddar fram, eitt og eitt herbergi í einu. Þær voru leiddar niður stigann og út úr húsinu að aftan, framhjá íþróttahúsinu og niður í litla laut. Þar beið þeirra enginn ævintýragangur heldur vorum við búnar að kveikja upp í eldstæðinu og höfðum þar kósý stund, grilluðum sykurpúða, sungum og fengum að heyra hugleiðingu kvöldsins um kærleikann. Að þeirri kósýstund lokinni var stelpunum tilkynnt að í boði yrði að sofa úti undir berum himni þessa nóttina. Þær voru margar sem leiddu hugann að því að prófa en þegar uppi var staðið héldum við út með lítinn en öflugan hóp. Við komum okkur fyrir í horni fótboltavallarins í faðmi trjánna. Við áttum skemmtilega og notalega stund þar úti með stelpunum áður en við lögðumst á koddann og vá, þvílík jákvæðni, ævintýrahugur og hlýja til hvorrar annarrar! Hinar sem eftir voru uppi í húsi áttu stund með bænakonunum fyrir svefninn. Þar sem unglingaflokkur er uppfullur af mikilli dagskrá og töluvert um það að við vökum frameftir var ákveðið að bjóða þeim að sofa út næsta dag.

Veðrið hefur leikið þvílíkt við okkur og erum við uppfullar af gleði og þakklæti fyrir það!

Meira á morgun.

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.