Eftir ævintýri gærkvöldsins var ákveðið að stelpurnar fengju að sofa lengur. Við vöktum þær sem enn sváfu kl. 11:30 en hinar sem vöknuðu fyrr gátu fengið sér smá morgunmat, dundað, gert vinabönd, farið í sturtu o.fl. í rólegheitum þar til formleg dagskrá hófst. Það virtist vera þreyta í hópnum og voru sumar sem voru enn sofandi þegar vakning var. Við sem sváfum úti sváfum flestar ótrúlega vel og gekk nóttin betur en ég hefði nokkurn tímann þorað að vona. Veðrið var stillt, hitastigið gott og flugur í hóflegu magni. Það kom svo að því augnabliki sem flestir kannast við í útilegum að allt í einu var sólin farin að hita svo mikið að við vöknuðum nánast allar á sama tíma að kafna úr hita. Það var notalegt að vakna við sólargeislana í andlitið og virtust stelpurnar ánægðar með þetta ævintýri! Við pökkuðum svo smám saman saman í rólegum heitum og héldum aftur upp í hús.

Þar sem stelpurnar fengu að sofa lengi var formlegum morgunmat og hádegismat slegið saman í dögurð og var þar boðið upp á jógúrt, brauð, alls kyns álegg, egg, beikon, amerískar pönnukökur, ávexti o.fl. Eftir mat var svo komið að föstum liðum sem vanalega eru keyrðir á morgnana, þ.e. biblíulestri og brennó. Á biblíulestri ræddum við um styrkleika og hvað þær eru allar dýrmæt sköpun Guðs og frábærar á sinn hátt.

Í dag var afmælisbarn í hópnum og var því boðið upp á afmælisskúffuköku og pizzasnúða í kaffinu.

Eftir kaffi fóru stelpurnar út í stigaratleik. Þá fengu liðin í hendurnar blöð með hinum ýmsu þratum sem þær áttu að leysa og reyna að safna sem flestum stigum á þeim tíma sem þeim var gefinn. Á meðan breyttu foringjarnir Ölveri í draugahús sem beið þeirra að leik loknum. Herbergin fóru af stað í leiðangur eitt af öðru með bundið fyrir augun inn á svokallaðan ævintýragang. Í þetta skipti var hann í drungalegri kantinum þar sem stelpurnar eru orðnar þetta stórar. Á leið þeirra í gegnum ævintýraganginn hittu þær fyrir ýmsar drungalegar verur, sem ýmist hræddu þær eða létu þær leysa þrautir. Út braust mikill tryllingur, spenningur og æsingur en stelpurnar skemmtu sér mjög vel í gegnum ferðalagið þrátt fyrir að bregða smá og hjartslátturinn hafi rokið aðeins upp. Ferðalagið endaði uppi í kvöldvökusal þar sem þær gátu spjallað, búið til vinabönd og fleira dund.

Í kvöldmat var boðið upp á kornflakeskjúkling, kartöflur og sósu og borðuðu þær vel. Eftir kvöldmat var slegið til kvöldvöku og síðastar en ekki sístar voru það stelpurnar í Fjallaveri sem sáu um skemmtiatriði. Þær gerðu sér líka lítið fyrir og sýndu frumsamið leikrit og voru með leik sem er nýr á nálinni, eða ég hef a.m.k. aldrei séð hér í Ölveri, og vakti hann mikla lukku.

Eftir kvöldvöku var sett af stað bíókvöld auk þess að boðið var upp á spjallstund með foringjum niðri í matsal. Tæknin var því miður aðeins að stríða okkur sem varð til þess að bíókvöldið varð smá klúður en þessar stelpur eru magnaðar og létu það ekkert á sig fá. Það myndaðist þó smá æsingur í kringum háttatíma, þó allt á góðu nótunum og í gleði, en þær voru heldur lengi að ná ró. Á morgun er komið að veisludegi hjá okkur og því farið að styttast í annan endann. Stelpurnar eru margar hverjar farnar að kynnast vel í bland og því orðið erfiðara að bjóða vinkonur úr öðrum herbergjum góða nótt og fara að koma sér í ró í sínu herbergi. Það hefst þó allt á endanum 😀

Meira á morgun.

Bestu kveðjur,

Unnur Rún, forstöðukona.