Síðasta heila daginn í Ölveri köllum við veisludag. Veðrið hélt áfram að leika við okkur og fengu stelpurnar aftur að sofa hálftíma lengur en vanalega. Í framhaldi tók við hefðbundin morundagskrá. Á biblíulestri ræddum við um þakklæti og í lokin var komið að því að uppljóstra því hver væri leynivinkona hverrar. Það gerðum við með því að þær létu kerti ganga og afhentu hver á fætur annarri til sinnar leynivinkonu og það var dásamlegt að fylgjast með hvernig andlitin ljómuðu á meðan á þessu stóð. Eftir biblíulestur var svo komið að því að spila lokaumferðina í brennókeppni flokksins þar sem vanalega er skorið úr um hvaða lið sigrar keppnina og vinnur sér inn keppnisrétt í leik gegn foringjunum næsta dag.
Í hádegismat var boðið upp á pastasalat þar sem þær fengu að blanda sér sjálfar blöndu úr þeim hráefnum sem í boði voru. Eftir hádegismat var svo boðið upp á brjóstsykursgerð, karaoke og skotbolta niðri í laut. Í kaffitíma var svo boðið upp á kanilsnúða og karamellulengjur. Eftir kaffi var boðið upp á pott og sturtur auk þess að við settum upp snyrtiaðstöðu í matsalnum þar sem stelpurnar gátu dundað sér við að hafa sig til fyrir kvöldið allar saman og hlustað á tónlist og spjallað á meðan.
Upp úr sjö var hringt inn í veislukvöldverð og stelpurnar þá allar orðnar svo fínar, komnar í sparigallann, búnar að setja upp skartið og andlitið og geisluðu þær allar af spenningi og ánægju. Sólin lék við okkur svo hópnum var smalað út í myndatöku fyrir mat. Á veislukvöldi er borðaröðun breytt í matsalnum og stelpunum raðað af handahófi í sæti svo þær sitja ekki með þeim vinkonum sem þær komu með heldur blandast með öðrum. Á þessum tímapunkti var hópurinn búinn að blandast mjög vel og var ekki annað að sjá en að stelpunum þætti þetta skemmtileg tilbreyting. Í veislumatinn var boðið upp á pizzu eins og stelpurnar gátu í sig látið. Eftir kvöldmat gafst svo smá frjáls tími á meðan foringjarnir borðuðu og undirbjuggu skemmtiatriði kvöldsins. Því næst var blásið til veislukvöldvöku þar sem stelpurnar sungu fullt af lögum í bland við stórskemmtileg leikrit frá foringjunum. Eftir kvöldvöku var boðið upp á kvöldkaffi með veisluívafi en þeirra biðu vöfflur þegar niður í matsal var komið. Eftir kvöldkaffi tók við í síðasta sinn (í bili allavega) notalega stund með bænakonunni. Við gáfum þeim ágætis tíma til að njóta inni á bænó og því var farið heldur seint að sofa. Það verða því líklega mjög þreyttar en vonandi líka mjög sælar stelpur sem þið fáið heim eftir vikuna.