Þá er fyrsti heili dagurinn okkar hérna í Ölveri búinn og var hann heldur betur skemmtilegur.
Stelpurnar voru vaktar af foringjum klæddum í öllum regnboganslitum enda var þema dagsins Regnboginn, það var meira að segja boðið uppá bláan hafragraut í morgunmat.
Samkvæmt Ölvershefð héldu allar stelpurnar út í fánahyllingu eftir morgunmat, gengu frá í herbergjunum sínum og mættu síðan á biblíulestur þar sem við sungum og ég sagði þeim söguna af Kristrúnu sem stofnaði Ölver, í lok stundarinnar var tilkynnt í hvaða brennóliðum stelpurnar voru og haldið beint út á fótboltavöll að spila brennó sem er aðal íþróttin í Ölveri.
Í hádegismat gæddum við okkur á sænskum kjötbollum með kartöflumús sem rann ljúft niður.
Næst á dagskrá var ævintýraganga þar sem stelpurnar hittu mjög leiða gráa persónu sem hafði týnt öllum litunum sínum, á leiðinni fundu þær svo litríka persónu sem vildi endilega hjálpa þeim að finna litina aftur og að lokum fundu þær persónu sem hafði stolið öllum litunum en svo völdu þær að deila litunum og allir urðu vinir. Sumar stelpurnar löbbuðu upp að steini í fjallinu á meðan aðrar sátu og týndu ber í rólegheitum.
Í kaffitíma var boðið uppá Ölversbollur og skúffuköku með regnbogakremi áður en stelpunum var boðið að fara í heita pottinn sem að flestar gerðu. Á meðan þær skiptust á að fara í pottinn var einnig boðið uppá karaoke og að skreyta steina.
Kvöldmaturinn var í þema dagsins og fengu allar hakk og regnbogaspagettí áður en haldið var á kvöldvöku þar sem stelpurnar í Skógarveri sáu um atriði kvöldsins.
Að lokinni kvöldvöku héldu stelpurnar niður í kvöldkaffi en þar voru bara foringjar að halda náttfatapartý, þar var sungið og dansað mikið áður en jólasveinninn kom í heimsókn með fullan poka af ís.
Síðan var haldið í háttinn sem gekk vel fyrir sig og sváfu þær allar vel í nótt eftir góðan dag.
Það eru komnar myndir af gærdeginum inná myndasíðuna okkar
Bestu kveðjur úr Ölveri,
Lilja Maren, forstöðukona