Það var blautur komudagur í Ölveri í gær þegar hressar og kátar stelpur í Leikjaflokki mættu á staðinn. Fyrsta samvera var í matsalnum þar sem farið var yfir það helsta, upplýsingar og reglur sem gott er að hafa á bakvið eyrað. Stelpunum var svo úthlutað herbergjum sem þær fóru strax í að gera notaleg með aðstoð sinna frábæru foringja og aðstoðarforingja. Þegar allar höfðu komið sér fyrir var dinglað í hádegismat og boðið var uppá skyr og pizzabrauð.
Það er skemmtileg blanda reyndra Ölversstelpna og þeirra sem eru að koma í fyrsta skipti svo eftir hádegismat fóru allar stelpurnar í göngutúr um svæðið sem endaði á fótboltavellinum þar sem hópurinn var hristur saman með skemmtilegum leikjum.
Lilja ráðskona virðist ætla að vera með bleikt þema fyrir okkur þennan flokkinn svo í kaffitímanum var boðið uppá súkkulaðiköku með bleiku kremi auk bananabrauðs sem rann ljúflega niður.
Eftir kaffi tóku við hinir sívinsælu Ölversleikar þar sem keppt var í ýmsum þrautum svo sem stígvélakasti, rúsínuspýti og breiðasta brosinu. Stelpurnar voru duglegar að hvetja hver aðra áfram og skemmtu sér allar prýðilega.
Í kvöldmat voru kjötbollur með kartöflumús og brúnni sósu og í kjölfar hans var fjörug kvöldvaka. Þar sáu stelpurnar um að skemmta hver annarri með leikjum og leikritum auk þess sem aðstoðarforingjar stigu á stokk. Fjalla- og Fuglaver sáu um atriði kvöldsins. Í lok kvöldvöku var farið í bænakonuleit um svæðið og reyndist það svaðilför fyrir sumar að finna sínar bænakonur sem höfðu falið sig vel og vandlega.
Stelpurnar fengu svo ávexti, háttuðu og burstuðu, skriðu undir sæng og áttu notalega stund með bænakonum inni á herbergi áður en allt féll í dúnalogn.
Ég hlakka til að halda áfram að kynnast þessum snillingum sem mættar eru hingað í Ölver, nóg spennandi framundan!
Þangað til næst,
Stella Rún, forstöðukona