Mikið ofboðslega var gaman á 3. degi okkar í Leikjaflokki! Sólin kíkti í heimsókn og gladdi okkur allar, stelpur og starfsfólk.
Hefðbundin dagskrá framan af degi, morgunmatur, biblíustund og brennó. Í biblíustundinni fórum við yfir þakklætið, hvað það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir sitt og hversu ríkulega það gefur okkur að iðka þakklæti daglega. Þær fylltu þakklætiskörfu af miðum með því sem þær eru þakklátar fyrir sem við festum svo upp á vegg í kvöldvökusal. Þar eru nú margir gullmolar sem gleðja okkur en stelpurnar eru þakklátar fyrir Ölver, bænakonurnar sínar, fjölskyldu og vini, það að fá að hvíla í Guði og geta treyst honum, föt, hreint loft og fleira og fleira.
Í hádeginu var boðið uppá bleika ávaxtasúrmjólk og brauð en svo tók við hæfileikakeppni þar sem stelpurnar gátu látið ljós sitt skína. Í kaffinu voru Ölversbollur, kanilsnúðar og jógúrtkaka svo það voru saddar og sælar skvísur sem héldu inn í síðdegisdagskránna.
Þær fengu að skreyta kökusneiðar sem boðið var uppá í eftirmat á veislukvöldi og þótti þeim það öllum skemmtilegt og gaman að sjá hvað þær eru skapandi og hugmyndaríkar. Einnig var boðið uppá pottaferð og allar fóru í sturtu fyrir veislukvöldið. Á meðan þær gerðu sig fínar buðu þær hver annarri uppá ýmislegt dekur og skemmtun á vinagangi. Þar mátti finna hár- og nuddstofur, laserráðgátuþraut auk þess sem foringjar buðu þeim sem vildu uppá fastar fléttur.
Á veislukvöldi var búið að skreyta matsalinn og stilla upp í kaffihúsastíl. Þeim var dreift í sæti af handahófi sem gerði það að verkum að hópurinn blandaðist jafnvel enn betur og mátti ekki annað sjá en að veislan væri meiriháttar vel lukkuð. Pizza eins og þær gátu í sig látið og kaka í eftirmat!
Skemmtiatriði kvöldsins voru í höndum foringja sem fóru algjörlega á kostum í hinum ýmsu hlutverkum. Stelpurnar hlógu svo mikið að leikritunum að sumar kvörtuðu undan brosverk í kinnunum. Þreyttar, saddar og kátar lögðust þær á koddann og fengu sína notalegu stund með sínum bænak0num áður en allt datt í dúnalogn í Ölveri.
Takk fyrir yndislegan dag,
Stella Rún, forstöðukona