Heimferðadagur!

Við starfsfólkið erum sammála um að þessi flokkur hafi flogið hjá. Það er búið að vera yndislegt að eiga þessa daga saman í Leikjaflokki. Stelpurnar hafa sigrast á alls konar hindrunum – rigningu, smávægilegri heimþrá, passað vel uppá hver aðra og dótið sitt svo það eru valdefldir sigurvegarar sem fara heim úr Ölveri í dag.

Á heimferðadegi pakka stelpurnar niður dótinu sínu eftir morgunmat áður en haldið er í biblíustund. Í dag fengu þær að heyra söguna: „Þú ert frábær!“ sem minnir okkur á að við erum óendanlega dýrmætar í augum Guðs og það er ekki okkar að dæma aðra eða gagnrýna. Við eigum allar okkar tilverurétt og eigum að fá að vera við sjálfar því við erum FRÁBÆRAR!

Svo var komið að foringjabrennó sem er æsispennandi dagskrárliður þar sem að sigurlið brennókeppninnar keppir á móti foringjunum áður en allar stelpurnar freista þess að sigra foringjana í lokaleik.

Í hádegismat var boðið uppá pylsur en þar sem að bleiki matarliturinn hafði klárast í eldhúsinu var náttúrulegur bleikur litur þeirra látinn duga. Síðan var haldið í kveðjustund, verðlaunaafhendingu og leiki áður en stelpurnar kvöddu sínar bænakonur inni á herbergjunum.

Við nýttum svo tímann úti fram að brottför.

Takk fyrir dásamlegan flokk!

Stella Rún, forstöðukona