Komudagur í Ölveri í blíðskaparveðri!

Það voru hressar og kátar stelpur sem mættu til leiks í listaflokki í gær. 30 skemmtilegar og skapandi stelpur sem verður gaman að eyða næstu dögum með í listsköpun og almennum ærslagangi. Við erum einnig vel mannaðar þessa vikuna með reynda foringja sem og yngri og ferskari í bland svo flokkurinn lofar sannarlega góðu.

Þegar í Ölver var komið fóru stelpurnar beint í útiveru með foringjum þar sem farið var í hina ýmsu leiki, nafnaleiki til að læra nöfnin, samhristingsleiki til að ná hópnum saman sem og leiki þar sem þeirra einstöku hæfileikar voru dregnir fram í dagsljósið enda um sérlega fjölbreyttan og skemmtilegan hóp að ræða.

Í hádeginu var boðið uppá skyr og pizzabrauð og tóku stelpurnar vel til matar síns. Eftir hádegismat var þeim skipt upp á herbergi og fengu þær smávegis tíma til að koma sér vel fyrir og gera herbergin notaleg. Það er keppni í umgengni og góðri hegðun í flokknum svo stelpurnar fóru strax að vinna sér inn prik og eru herbergin þeirra hvert öðru huggulegra.

Í kaffinu fengu þær jógúrtköku og bananabrauð og var ekki annað að sjá en að bakkelsið væri vel þegið. Þær Karítas og Halldóra standa vaktina í eldhúsinu og dekra við okkur í mat og drykk. Eftir kaffi var komið að hinum sívinsælu Ölversleikum þar sem keppt er í ýmsum þrautum svo sem lundarspretti, rúsínuspýti og stígvélakasti. Stelpurnar þurftu bæði að vinna sem hópur auk einstaklingsþrauta og er einstaklega gaman að sjá hvað þær eru flinkar í samskiptum og vinna vel saman.

Fram að kvöldmat var svo frjáls tími í flæði þar sem þær gátu föndrað, búið til armbönd og vinabönd, farið í Just Dance eða leikið úti. Í kvöldmat var steiktur fiskur með kartöflum og kokteilsósu og heyrðist víða um matsalinn að þetta væri besti fiskur sem þær hefðu smakkað!

Þá var komið að kvöldvöku en atriði kvöldsins voru í höndum aðstoðarforingja sem slógu í gegn með skemmtilegum leikritum og leikjum.  Mikið hlegið, mikið sungið og mikið dansað. Stella var svo með smávegis hugvekju og sagði söguna „Þú ert frábær!“ sem minnir stelpurnar á að þær eru einstakar í augum Guðs, óendanlega dýrmætar og að það sé ekki okkar að dæma aðra. Það er svo mikilvægt að ýta undir jákvæða sjálfsmynd stelpnanna og seiglu enda eru Ölversstelpur þær allra seigustu, dugnaður og þor út í gegn.

Í lok kvöldvöku var svo komið að bænakonuleitinni en foringjar íklæddir hinum ýmsu búningum höfðu falið sig víða á lóðinni og biðu þess að stelpurnar finndu þær og dönsuðu hinn rétta dans hvers herbergis. Þannig pöruðust herbergin og bænakonur en þær eru mikilvægur partur af dvölinni, huggun og skjól þegar heimþrárpúkinn lætur sjá sig.

Þá var komið að kvöldkaffi, ávöxtum og vatnssopa, áður en allar lögðust þreyttar, saddar og sælar á koddann.

Takk fyrir frábæran Ölversdag!

Stella Rún, forstöðukona