Fjörugur dagur að baki þar sem allar vöknuðu Ölversstelpur, sumar að sofa sína fyrstu nótt í Ölveri. Dagurinn hófst á morgunmat og tiltekt áður en stelpurnar fengu að heyra sögu Ölvers og þá sérstaklega tengda hugsjónakonunni Kristrúnu Ólafsdóttur en án hennar værum við ekki hér.

Þá var haldið í brennó en brennókeppnin er stór hluti af Ölversupplifuninni. Stelpunum er skipt í lið sem keppa innbyrðis á hverjum morgni. Sigurliðið etur svo kappi við foringjana í foringjabrennó á lokadegi flokksins svo það er mikið í húfi.

Í hádegismat var boðið uppá ávaxtasúrmjólk og brauð sem er algjör sumarbúðaklassík og tóku allar vel til matar síns. Eftir hádegi var komið að Ölver’s Top Model en þar fá stelpurnar opinn efnivið til að hanna eitt „outfit“ á fyrirsætu úr herberginu sínu. Þær græja hár og förðun líka og mega sækja blóm og annað nýtilegt í náttúruna og það voru sérlega frumlegar og flottar fyrirsætur sem gengu tískupallinn í matsalnum.

Í kaffinu fengum við Ölversbollur og bananaköku – algjört nammi! Eftir kaffi vorum við með stöðvar í flæði en allar útbjuggu stelpurnar skreytt umslög með nöfnunum sínum. Næstu tvo daga munu þær fá glaðninga í umslagið frá leynivininum sínum – föndur, falleg hrós eða hvað sem þeim dettur í hug. Sumar fóru í heita pottinn, sumar í útileiki og aðrar föndruðu armbönd.

Í kvöldmat var hakk og spaghetti sem er einmitt eftirlætismatur sumra. Eftir kvöldmat var frjáls tími fyrir allar nema þær í Skógarveri sem undirbjuggu atriði fyrir kvöldvöku. Herbergin skipta með sér kvöldvökum, leika leikrit, sýna töfrabrögð og stýra leikjum og er alltaf sérlega gaman að fylgjast með stelpunum tækla þetta verkefni. Mikill hlátur, söngur og dans auk þess sem þær fengu að heyra hugleiðingu og söguna um óskirnar 10. Þá var komið að kvöldkaffi, ávöxtum og vatnssopa.

Stelpurnar gerðu sig svo klárar í háttinn en þegar þær áttu að fara að leggjast uppí heyrðust skruðningar og læti. Foringjar í náttfötum komu blaðskellandi inn gangana með tónlist og efndu til fjörugs náttfatapartýs þar sem var dansað og trallað frameftir. Þær fengu svo ís og kvöldsögu áður en allar burstuðu tennur uppá nýtt og fóru að sofa.

Mjög skemmtilegur Ölversdagur með skemmtilegum stelpum í Listaflokki!

Stella Rún, forstöðukona