4. dagurinn okkar í listaflokki var í einu orði sagt frábær. Stelpurnar voru vaktar með tónlist, að venju, fengu morgunmat og tóku til í herbergjunum sínum. Í kjölfarið var biblíustund og brennó, fastir Ölversliðir sem okkur þykir svo vænt um.
Í hádeginu fengu þær grænmetisbuff og cous cous með grænmetissósu og grænmetis“frönskum“ og borðuðu allar mjög vel. Eftir hádegi var komið að listastöðvum en boðið var uppá HipHop dans og kökuskreytingar. Einnig máluðu þær steina og undirbjuggu sig fyrir hæfileikakeppnina sem var á dagskrá eftir kaffi.
Í kaffinu gæddu stelpurnar sér á kökunum sem þær höfðu skreytt með smjörkremi í öllum regnbogans litum. Ótrúlega hæfileikaríkar stelpur og skapandi og kökurnar í raun algjör listaverk. Eldhúsið bauð svo einnig uppá volga kanilsnúða.
Eftir kaffi var komið að Ölver’s Got Talent, hæfileikakeppninni. Foringjar tóku að sér að kynna og dæma keppnina og brugðu sér í gervi Ice Guys drengjanna sem vakti mikla kátínu viðstaddra. Stelpurnar komu svo fram fyrir hópinn og sýndu listir sínar. Það voru metnaðarfull hópatriði, dans og söngur á frumsömdum Ölverstexta við gamlan slagara. Sumar komu einar fram og sýndu mikið þor og hugrekki og fengum við að sjá listilega samanbrotin origami-verk, hlýddum á fallegan söng og sáum fleiri dansatriði. Þær þvoðu svo allar „tie-dye“bolina sína og fóru í heita pottinn.
Í kvöldmatinn voru tortilla-vefjur með hakki og grænmeti og þrátt fyrir að sumum hafi þótt hakkið helst til mikið kryddað borðuðu stelpurnar vel. Hamra- og Hlíðarver sáu um skemmtiatriði á kvöldvökunni sem var í styttri kantinum þar sem að boðið var uppá bíó strax í kjölfarið. Þær horfðu á hina klassísku „Parent Trap“, sérlega viðeigandi þar sem að við erum jú í sumarbúðum. Flestum fannst þó heldur langt að vera í sumarbúðum í 8 vikur eins og þær stöllur í bíómyndinni. Eldhúsið bauð uppá popp, djús og epli með myndinni og þær lágu allar saman í hrúgu í kvöldvökusalnum með sængurnar sínar og bangsana og skemmtu sér konunglega.
Þreyttar en kátar enduðu þær daginn með bænakonum sínum inni á herbergi. Það tók ekki langan tíma að svæfa þetta kvöldið og fljótt algjör friður í húsinu.
Þangað til næst,
Stella Rún, forstöðukona