Við sváfum aðeins út á 5. degi í listaflokki enda allar smá lúnar eftir bíó kvöldið áður. Morgunmatur og tiltekt voru á sínum stað áður en við fórum í biblíustund þar sem við fórum vel í það hversu óendanlega dýrmætar við erum í augum Guðs og heyrðum söguna um miskunnsama Samverjann. Einnig æfðum okkur í að hrósa, bæði okkur sjálfum og öðrum. Stelpurnar fylltu litríkar stjörnur af styrkleikum sínum sem við hengdum svo uppá vegg. Það var dásamlegt að lesa yfir styrkleikana en hjá okkur eru sterkar, klárar, hugrakkar, seigar, fyndnar, fallegar, skemmtilegar, góðar systur og vinkonur sem eru góðar í öllu mögulegu! Algjör forréttindi að fá að vera hér í Ölveri með þeim.
Þá var komið að lokadegi brennókeppninnar og hádegismat en í þetta sinn var pastasalat á boðstólum. Eftir hádegismat fóru stelpurnar í göngu að læknum enda blíðviðri og sólríkt hjá okkur. Þær fóru margar í stuttubuxur eða sundföt svo hægt væri að vaða á meðan aðrar flatmöguðu á lækjarbakkanum og sleiktu sólina. Frjálsi tíminn var vel nýttur úti auk þess sem við borðuðum kaffi úti. Eldhúsið hafði töfrað fram skinkuhorn og karamellulengjur sem féllu vel í kramið.
Eftir kaffi var boðið uppá pott og sturtu, útileiki, föndur og blómakransagerð í lautinni. Foringjar buðu einnig uppá fléttur úti fyrir þær sem vildu fyrir veislukvöldið. Öll þessi útivera var alveg dýrðleg og allar nutu sín vel. Stelpurnar skelltu sér svo í sparifötin áður en haldið var til veislukvöldverðar – pizza, djús og rice crispie kökur í eftirmat. Á veislukvöldi er búið að skreyta matsalinn og stilla upp eins og á fínum veitingastað. Þær sitja ekki í sínum venjulegu sætum heldur er dreift á borðin af handahófi. Það var svo gaman að sjá hvað þær eru orðnar góðar vinkonur, þvert á hópinn, og mikil gleði og kátína í veislunni.
Kvöldvaka á veislukvöldi er í höndum starfsfólksins sem sjá um leikrit og skemmtiatriði. Stelpurnar stigu reyndar á stokk í upphafi kvöldvökunnar og sýndu HipHop dansana sem þær voru búnar að æfa með Eddu, foringja og snillingi með meiru. Algjörir töffarar. Leikritin voru líka sérlega skemmtileg og mikið hlegið.
Hjartans þakkir fyrir frábæran Ölversdag. Það var þakklát forstöðukona sem horfði á sólsetrið og hlustaði á þögnina eftir að allar voru sofnaðar 🙂
Stella Rún, forstöðukona