Í gær var veisludagur. Stelpurnar vöknuðu eftir góðan svefn, fengu sér dýrindis morgunmat og héldu á morgunstund. Þar voru þær spenntar fyrir að syngja mörg Ölverslög og heyrðu söguna um Þakkarkörfuna. Í kjölfarið skrifuðu þær hluti sem þær eru þakklátar fyrir og settu í körfu. Eftir morgunstundina var farið aftur í brennó og klárað að græja tie dye síðan daginn fyrir. Í hádegismatinn var boðið upp á pastasalat. Þar sem það var ekki rigning þennan daginn, var ákveðið að skella sér niður að læk sem stelpurnar nutu og svo pottapartý þegar þær komu aftur úr göngunni. Í kaffitímanum var boðið upp á heimagerð skinkuhorn og muffins sem stelpurnar fengu að skreyta sjálfar. Eftir kaffi var svo brjóstsykursgerð, trölladeigið var málað og var einnig boðið upp á “gellustund” þar sem allar fengu fastar fléttur.
Matsalurinn var svo skreyttur og fóru þær í fínni föt fyrir veislukvöldið. Í veislukvöldsmatinn var pizza sem þær höfðu sett sjálfar á fyrr um daginn. Á veislukvöldvökunni sáu þær svo foringjana leika listir sýnar og virtust stelpurnar hafa gaman af því. Þær heyrðu svo sögu og fengu ís og ávexti í kvöldkaffið. Þær sofnuðu svo allar eftir frábæran veisludag.
Í dag er heimkomudagur og erum við að fara að klára að pakka, þær munu heyra smá sögu sem heitir “Þú ert frábær” og syngja lög áður en þær fá pylsur og leggja svo af stað aftur í bæinn.
Við munum koma aftur á Holtaveg 28 kl. 14 í dag.
Takk fyrir frábæran flokk og við hlökkum við að sjá sem flestar aftur eftir ár!
Ölverskveðjur,
Guðlaug og Ólöf forstöðukonur.