Á svona fögrum degi er ekki annað hægt en að njóta lífsins á stað eins og hér í Ölveri. Sólin fagnaði okkur er fyrstu augu opnuðust hér í kyrrðinni og fylgdi okkur stíft fram að kvöldmat. Eftir hádegi stóð mikið til, það þekkja þær sem dvalið hafa hér áður, því við fórum niður að ánni. Áður en lagt var af stað fengu stúlkurnar sólaráburð og ekki vanþörf á. Áin er vatnslítil og grunnt að vaða yfir, eins og sést á myndum dagsins!
Eldhúsdömurnar höfðu útbúið heimabakað nesti fyrir okkur, heilhveiti-skinkuhorn og sýrópskökur ásamt drykkjum, sem við borðuðum á árbakkanum. Þær okkar sem dvöldu lengst við ána vorum í fjóra klukkutíma, en helmingur stúlknanna fór nokkru fyrr. Hitinn var mikill og nánast logn, þannig að kaldir kroppar stúlknanna sem ætt höfðu út í á voru fljótir að þorna og hlýna.
Eftir ferðina voru flestar stúlknanna til í að skella sér í heita pottinn og einn hópur æfði leikrit og leiki fyrir kvöldvökuna sem gekk mjög vel. Þá höfðu skotturnar sig til fyrir nóttina og fóru með bænakonum inn í herbergin sín.
Þeim brá heldur í brún þegar pottaglamur og söngur heyrðist utan af gangi, en þar vorum við að bjóða til náttfatapartýs. Þessar stúlkur eru ótrúlega kraftmiklar og dansa langt fram á kvöld við dynjandi tónlistina auk þess sem þær gleðjast yfir uppátækjum uppáklæddra foringjanna sem alltaf eru til í að leggja ýmislegt á sig til að kalla fram hlátrasköll þeirra ungu. Svona eiga dagar að vera!
Með björtum sólarkveðjum úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.
Myndirnar frá deginum í dag eru væntanlegar á netið núna rétt eftir miðnætti.