Enn einn góður dagur er nú genginn og aðeins veisludagurinn er eftir. Eftir allar dýrðir gærkvöldsins, dans, söng, sprell og leik, fengu stúlkurnar að sofa örlítið lengur, enda sunnudagur. Í morgunmat fengu þær heitt kakó og brauð með osti, sem er óvenjulegt hér. Eftir fánahyllingu var létt-guðsþjónusta þar sem umræðuefnið var bæði heilög þrenning og einnig táknmál kristninnar, í litum og formum. Þá tók brennókeppnin við, úrslitaleikirnir voru leiknir og var mikil spenna í loftinu, enda margar stúlknanna í íþróttum.
Í hádegismat fengum við svínagúllas í súrsætri sósu sem stúlkurnar borðuðu mjög vel af. Þá fengu íþróttaliðin blöð í hendur sem voru upphaf ratleiksins, sem stóð fram að kaffi. Eftir velgjörðir var síðan boðið upp á dúllustund, þar sem nokkrar stöðvar voru í gangi; ýmis spil, krossanælugerð, teikning og föndur auk berjatínslu. Berin notuðum við síðan út á skyr kvöldsins og var það ljúffengt. Atriði kvöldvökunnar voru á ábyrgð stúlknanna í Skógarveri og má sjá myndir frá því hér á síðunni (sjá neðar).
Kvöldkaffinu voru gerð góð skil og eftir undirbúning og tannburstun fóru sælar stúlkur og ekki of þreyttar inn á herbergi með bænakonum sínum.
Með kærri kveðju héðan úr Ölveri,
Ása Björk, forstöðukona.