Nú er langur og strangur dagur liðinn og það voru uppgefnar stelpur sem lögðu höfuðin á koddana. Eftir morgunmat, fánahyllingu og brennó völdu stúlkurnar sér hópa og undirbjuggu ákveðna messuliði. Vegna sérlega góðrar veðurspár, var farið í óvissuferð, þar sem sundlaug með mörgum rennibrautum, hinir heillandi Brúðuheimar, Skallagrímsgarður og fallega kirkjan á Borg á Mýrum voru helstu viðkomustaðir okkar. Við héldum guðsþjónustu á Borg og var það sérlega ljúft. Við komum heim stuttu fyrir kvöldmat og aldrei hefur jafnmikið magn skyrs verið borðað hér í Ölveri, þó borðuðum við einnig vel af kaffibrauði í Skallagrímsgarði. Þetta var reyndar regnbogaskyr fyrir þær sem það völdu.
Á kvöldvökunni voru það stúlkurnar í Hlíðarveri sem sáu um skemmtiatriðin, sögð var Biblíusaga og einnig var mikið sungið. Eftir ávexti var farið í rúmið.
Þreyttar stúlkurnar voru mjög sáttar eftir langan dag, en vissu ekki að starfsfólkið var búið að undirbúa uppákomu síðar um kvöldið. Það var því mikil spenna þegar starfskonum og stúlkum var safnað í matsalinn og þeim sagt frá möguleikanum á að frægur söngvari ætti leið hjá. Allar í sparifötin og að undirbúa staðinn fyrir komuna. Sumar voru vonsviknar er í ljós kom að um eftirhermu var að ræða, en margar tóku þátt í gríninu og höfðu gaman af. Það er ljóst að þjóðhátíðardagurinn okkar hefst seinna en aðrir dagar, því stúlkurnar þurfa að fá nægan svefn til að höndla fjör komandi dags.
Með kærum kveðjum úr fagurri nætursólinni og bleikum skýjaslæðunum,
Ása Björk forstöðukona.