Stelpurnar voru allar vaknaðar þegar ég ætlaði að vekja þær í morgun klukkan 9. Þær voru snöggar að klæða sig og bursta tennurnar og fengu svo morgunmat. Vegna þess hve mikill vindurinn er hérna þá var engin fánahylling í morgun en þær tóku til í herbergjunum sínum – það er hluti af hegðunarkeppninni sem er í gangi hérna allan flokkinn.
Eftir tiltekina var biblíulestur og þær sungu eins og englar, hlustuðu ótrúlega vel og æfðu sig í að fletta upp í Nýja Testamentinu. Eftir biblíulesturinn fóru þær í brennó. Það gekk mjög vel og öll liðin 6 léku einn leik. Það eru þrír brennóleikir á hverjum degi, þangað til kemur í ljós hver vann keppnina og það lið fær svo að keppa við foringjana á Veisludag.
Í hádegismatinn var hamborgari og franskar. Þær borðuðu vel. Eftir matinn var hárgreiðslukeppnin og flestar tóku þátt. Þær sem ekki vildu vera með lituðu eða perluðu á meðan. Eftir kaffitímann var íþróttakeppnin en í dag var keppt í tveimur greinum. Eftir keppnina fóru þær svo í heita pottinn og Hamraver undirbjó skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna.
Í kvöldmatinn var dýrindis grjónagrautur og pizzubrauð og þær borðuðu ekkert smá vel. Kvöldvakan var svo á sínum stað og Hamraver stóð sig með stakri prýði. Þær sungu mikið og hlustuðu vel á hugleiðinguna. Þær fengu svo ávexti í kvöldkaffi, háttuðu sig og tannburstuðu og núna eru bænakonurnar inni á herbergjunum að lesa.
Dagurinn í dag hefur í alla staði gengið mjög vel. Stelpurnar ná mjög vel saman og allt gengur eins og smurt. Við erum mjög ánægðar með stelpurnar og vonum að þær skemmti sér ótrúlega vel J
Með bestu kveðju,
Þóra Jenny, forstöðukona.
Myndir frá deginum má sjá með því að smella á linkinn hér að neðan:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=137110&g2_page=1