Ég skulda tvo daga af fréttum þannig að þessi pistill verður langur J
Miðvikudagur 29.júní.
Stúlkurnar sváfu flestar alveg þangað til þær voru vaktar kl. 9 í morgun. Eftir að hafa klætt sig og tannburstað tók við hefðbundin dagskrá: morgunmatur, fánahylling, tiltekt, biblíulestur, brennó og hádegismatur.
Veðrið var töluvert betra heldur en það hefur verið undanfarna daga og við nýttum að sjálfsögðu tækifærið til að fara í gönguferð. Við ákváðum að fara í fjallgöngu og þær höfðu mjög gaman af. Við göngum aðeins inn með fjallinu „okkar“ og klifrum upp að steini sem er í miðri fjallshlíðinni og það er alltaf mikið kappsmál að komast sem fyrst upp að steininum.
Við heimkomuna var kaffitími, brauðbollur, súkkulaðikaka og karamellulengjur – allt bakað fyrr um morguninn. Eftir kaffitímann var íþróttakeppni og potturinn. Hlíðarver sá um skemmtiatriði kvöldsins og þær undirbjuggu sig eftir að hafa farið í pottinn. Þær eru duglegar að dunda sér og finnst ótrúlega gaman að vera úti í hengirúminu og bátnum okkar, Abbadís.
Þær fengu svo pylsur í kvöldmatinn og borðuðu allar vel. Svo kom að kvöldvökunni og tókst hún með ágætum. Þær syngja mjög mikið og taka vel undir í öllum lögunum. Þær eru lika fljótar að læra lögin og biðja iðulega um óskalög.
Þær fengu ávexti í kvöldkaffi og eftir að hafa tannburstað og háttað sig fóru bænakonurnar inn til þeirra og lásu fyrir þær. Þær sofna fyrr á kvöldin enda nóg að gera hjá okkur á daginn.
Fimmtudagur 30.júní.
Þær voru að venju vaktar kl. 9 og höfðu 30 mínútur til að tannbursta sig og klæða í föt. Morgunmatur, fánahylling, biblíulestur, brennó og hádegismatur. Þær fengu kjötbollur sem runnu mjög ljúflega niður. Nokkrum fannst þær meira að segja svo góðar að þær báðu ráðskonuna um uppskrift!!
Veðrið í dag hefur verið frábært og við fórum niður að Hafnará til að vaða. Nokkrum stelpum fannst það ekki alveg nógu spennandi og skemmtu sér við að setjast í vatnið og reyna að bleyta sig sem mest. Sólin þurrkaði þær svo þegar þær voru komnar með nóg af því að vaða. Gangan frá ánni og upp í Ölver er ekki löng en þær eiga miklu erfiðara með að labba til baka heldur að ánni J En það er svo sem algengt hjá stelpunum. Þær eru samt ótrúlega duglegar og finnst lítið mál að trítla þetta með okkur.
Það var svo kaffitími þegar við komum upp í Ölver. Það er alltaf eitthvað brauðmeti og svo ein til tvær sortir af einhverju sætu. Stundum eru ávextir í boði líka. Eftir kaffitímann var svo boðið upp á íþróttakeppni en þær kepptu meðal annars í stígvélasparki. Skógarver undirbjó svo skemmtiatriði kvöldsins og við setjum inn nokkrar myndir frá kvöldvökunni.
Í kvöldmatinn var svo ávaxtasúrmjólk og brauð. Þeim fannst súrmjólkin æði og þær kláruðu hana alveg upp til agna!! Kvöldvakan var frábær, mikið af hreyfilögum (sem foreldrar eiga eftir að heyra OFT fyrst eftir að stelpurnar koma heim!), skemmtiatriði og hugleiðing. Þær hlusta mjög vel og spyrja mikið.
Þær fengu epli og appelsínur í kvöldkaffi, háttuðu sig, burstuðu og fóru upp í rúm. Bænakonurnar lásu fyrir þær og þær voru ótrúlega duglegar að fara að sofa!
Takk fyrir okkur,
Þóra Jenny, forstöðukona.