Við vöknuðum seint í morgun í alveg geggjuðu veðri. Fengum okkur að borða áður en við héldum Biblíulestur úti í laut og fórum svo í brennó. Eftir hádegismat fórum við niður að á þar sem við busluðum fram eftir degi og sóluðum okkur. Stelpurnar máluðu svo steina við ána þannig að nú er umhverfið fallega skreytt. Þegar heim var komið héldum við áfram að leika okkur í sólinni og fórum í pottinn. Kvöldvakan var svo í umsjá Hamravers sem að sjálfsögðu sló í gegn eins og öll hin herbergin. Eftir kvöldkaffi beið okkar svo ævintýraleikur.  Stelpurnar þurftu að hjálpa Ariel hafmeyju að finna prinsinn, til þess þurfti að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir.  Þegar það hafði verið gert enduðu stelpurnar á kaffihúsi hjá prinsinum.  Dagurinn endaði svo í rólegheitum með bænakonum og stelpurnar voru fljótar að sofna.  Mikil spenna er fyrir morgundeginum þegar öll verðlaun verða veitt og foringjar sýna glæsitakta í leik og söng.

Við erum þakklátar fyrir þessar flottu stelpur og vonumst til þess að sjá þær sem flestar aftur næsta sumar hér í Ölveri.

Sjáumst svo á Holtavegi um 20:30.

Kveðja

Starfsmenn Ölvers