Hér gengur allt ótrúlega vel og stelpur og starfsfólk er mjög ánægt með dvölina. Dagurinn byrjaði mjög hefðbundið; morgunmatur, fánahylling, biblíulestur, brennó og hádegismatur.
Eftir hádegismatinn var hið víðfræga Ölver’s next top model en stelpurnar greiddu hver annarri, jafnvel förðuðu og völdu föt á módelið sitt sem svo sýndi á tískusýningu í lok keppninnar. Stelpurnar skemmtu sér vel og margar fengu flotta hárgreiðslu.
Eftir kaffi var boðið upp á nokkrar stöðvar; gönguferð að Stóra-steini sem reyndar engin valdi að fara í, kubb niðri í laut, brennó, og spil, perlur og vinabönd í salnum. Þær völdu sér hóp eftir áhuga og höfðu gaman af. Stúlkurnar í Hamraveri undirbjuggu leikrit fyrir kvöldvökuna. Eftir kvöldmatinn var svo kvöldvaka en þar var Hamraver með eitt leikrit og tvo leiki ásamt því að Agnes foringi var með hugleiðingu.
Þegar allar stelpurnar voru komnar upp í rúm afhentu forstöðukona og matvinnungarnir herbergjunum bréf frá bænakonunum þar sem kom fram að þær hefðu ákveðið að leggja á flótta og fela sig úti í skógi. Nú stendur yfir leitin mikla að bænakonunum.
Við sendum góðar kveðjur héðan úr Ölveri.
Þóra Jenny, forstöðukona.