Það voru kátar stúlkur sem mættu í ævintýralega vikudvöl í Ölveri í dag. Spennan var mikil og allar komust í óskaherbergið sitt með uppáhalds vinkonunum. Þær sem ekki komu með vinkonu, voru fljótlega búnar að kynnast skemmtilegum jafnöldrum og greinilegt að engin var einmana. Eftir léttan hádegismat, var farið í rannsóknarleiðangur um landareignina og margt skemmtilegt að sjá, enda veðrið dásamlegt! Mikið fannst þeim líka gaman að leika úti í Guðs grænni náttúrunni fram að kaffi! Súkkulaðikökunni voru gerð góð skil og einnig var boðið upp á appelsínubáta. Þá tók við mögnuð íþróttakeppni sem samanstóð af broskeppni, tveggja staða hlaupi og sippi. Mikið hlegið og sprellað. Í kvöldmatinn var speghettí og hakk og borðuðu þær meira en gert var ráð fyrir, en nóg var til og leggur þessi frammistaða línurnar fyrir eldamennsku næstu daga. Eftir frjálsan tíma var komið að kvöldvökunni og voru stúlkurnar í Hlíðarveri búnar að æfa leikrit og leiki sem fóru vel. Mikið var sungið og spjallað um Biblíuna auk þess sem bænir voru beðnar. Stúlkurnar fóru í ratleik til að finna bænakonurnar sínar. Þegar þær voru búnar að hafa sig til fyrir svefninn og fá ávaxtabita, fóru þær inn í herbergi með bænakonum sínum. Eftir viðburðaríkan dag, er komin ró í fallega húsinu okkar í Ölveri og von til að nóttin verði róleg.
Við þökkum góðum Guði fyrir fallegan dag með yndislegum stúlkum.
Kær kveðja, Ása Björk og Þóra Björg forstöðu- og ráðskonur