Fyrsti dagurinn í Ölveri gekk mjög vel hjá okkur. Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir í herbergjunum fengu þær súpu og brauð í hádegismat og síðan var farið í smá könnunarleiðangur um svæðið og farið var í leiki niðri á íþróttavelli. Í kaffitímanum fengu þær ljúffenga köku og heimabakað brauð sem rann vel niður. Eftir kaffi var farið í brennó og íþróttakeppni en þar var m.a keppt í þriggjastaðahlaupi og stígvélasparki. Í kvöldmatinn voru kjötbollur, kartöflumús og salat. Um kvöldið var svo kvöldvaka sem foringjarnir sáu um og svo ríkti mikil spenna hver bænakonan yrði en það fer einn starfsmaður á hverju kvöldi inn í áveðið herbergi og verður svokölluð bænakona. Þær voru flestar sofnaðar um kl.23 sem er mjög gott á fyrsta kvöldi. Frábær dagur með frábærum og góðum stelpum. Fréttir munu svo berast daglega og við setjum inn myndir eins fljótt og auðið er en tæknin hefur aðeins verið að stríða okkur.
Með kærri kveðju úr Ölveri!
Erla Björg Káradóttir