Það var ansi margt skemmtilegt á dagskrá hjá okkur í Ölveri í gær. Brennókeppnin og Biblíulesturinn voru á sínum stað eins og vanalega. En eftir hádegismat var svokallaður ævintýragangur. Þá var bundið fyrir augun á stúlkunum á meðan þær löbbuðu inn í mismunandi herbergi í hin ýmsu ævintýri. En til þess að komast af stað í ævintýragönguna þurftu þær að útbúa sín eigin vegabréf og teikna passamynd. Í herbergjunum máttu þær svo taka frá agunum en þar tóku meðal annars á móti þeim þyrnirós, Elsa í Frozen, norn og galdrakona. Eftir kaffitímann var brjóstsykursgerð og kókoskúlugerð og síðan var í boði að fara í pottinn. Eftir kvöldmat var hefðbundin kvöldvaka þar sem Lindarver sá um að skemmta okkur og tókst þeim það svo sannarlega. Kvöldvakan endaði þó á óhefðbundin hátt, en þá kom inn persóna sem var í eins konar lögreglubúning og útskýrði fyrir okkur skemmtilegan eltingaleik sem þær fóru svo í úti. Eftir mjög skemmtilegan eltingaleik úti í góða en kalda veðrinu fórum við síðan allar inn og hlýjuðum okkur. Þegar við komum inn var búið að breyta matsalnum í kaffihús og fengu stúlkurnar vöfflur, heitt súkkulaði og allt tilheyrandi… og að sjálfsögðu brjóstsykurinn og kókoskúlurnar sem þær höfðu búið til um daginn. Ekki skemmdi síðan fyrir að einn foringinn okkar spilaði ljúfa tóna á fiðlu á meðan. Allar fóru sáttar að sofa og vöknuðu glaðar í morgun. Í dag tekur við eitthvað ótrúlega spennandi 🙂
Ég minni á að hægt er að skoða myndirnar hér á heimasíðunni.
Bestu kveðjur,
Þóra Björg, forstöðukona