Stúlkurnar sváfu til klukkan níu í morgun og voru röskar á fætur. Úti var sól og heiður himinn en smá gola. Eftir morgunmat var eins og á hverjum morgni biblíulestur og ræddum við um bænina.
Brennókeppnin var á sínum stað og eftir hana rann grjónagrauturinn ljúflega niður í hádegismatnum. Eftir sá frjálsan tíma var haldið af stað niður að læk, í góða veðrinu þar sem var buslað, legið í sólbaði og þess noti að vera úti í góða veðrinu. Við drukkum kaffið úti í dag, en boðið var upp á jógúrtskúffuköku og brauðbollur.
Þrátt fyrir að vera í sumarbúðum var spennan mikil fyrir leiknum Ísland – Austurríki á EM og var honum varpað upp á skjávarpa fyrir stúlkurnar. Mikil stemming var í húsinu, andlitin máluð og fánarnir teknir fram. Fagnaðarlætin voru þvílíkt þegar skorað var og þakið ætlaði af Ölver þegar ljóst var að Ísland hefði unnið leikinn. Þær sem ekki vildu horfa á fótbolta nutu þess að vera úti í sólinni, lesa, spila eða fara í heita pottinn.
Rétt fyrir kvöldmatinn var blásið í hoppudýnuna og þar var mikið fjör fram að matartíma. Í honum fengum við kjúklingaleggi, kartöflur og tilheyrandi, sem rann ljúft niður.
Á kvöldvökunni var það Lindarver sem sá um skemmtiatriði, auk þess sem stúlkurnar sungu og hlustuðu á hugleiðingu. Strax og kvöldvaka var búin fóru þær allar í náttföt og náðu sé í sængur, svefnpoka og fullt af dýnum því nú skyldi haldið movie night. Þegar stúlkurnar höfðu komið sér fyrir, fengu þær ávexti og popp á meðan að horft var á „Cinderella story“.
Eftir myndina fóru allar og kláruðu að gera sig til tilbúnar fyrir nóttina og voru það þreyttar stúlkur sem fóru í rúmið eftir viðburðaríkan dag á þessum dásamlega stað.