Héðan er allt gott að frétta. Flokkurinn hefur farið mjög vel af stað enda einstaklega flottur hópur sem við fengum hingað uppeftir til okkar.
Í gær þegar allir voru búnir að koma sér vel fyrir var farið í könnunarleiðangur um svæðið og það sem það hefur uppá að bjóða skoðað. Þá var farið í leiki til að hrista hópinn saman og til að kynnast betur. Í hádegismatinn var jarðaberjajógúrt og brauð. Eftir kaffi var farið í brennó en brennó er ómissandi þáttur í starfi Ölvers. Stelpunum var skipt upp í 6 lið sem heita að sjálfsögðu eftir landsliðsmönnunum okkar í fótbolta. Munu þær keppa á hverjum degi og loks mun vinningsliðið mæta foringjunum. Veðrið var frábært og sólin skein, blásið var í hoppukastalann og stelpurnar voru duglegar að vera úti.
Eftir kvöldmat sem var fiskréttur með hrísgrjónum og grænmeti var kvöldvaka í boði foringjanna en eftir hana hófst leit að bænakonunum. Stelpurnar fengu vísbendingar og þurftu að hlaupa út á náttfötunum og finna sína bænakonu. Hvert herbergi er með sérstaka bænakonu sem kemur inn á herbergi hverju kvöldi og spjallar við stelpurnar og biður með þeim kvöldbænirnar.
Ró var komin á um miðnætti.
Í dag hófst dagurinn á morgunverði og fánahyllingu en síðan var blásið á Biblíulestur sem er einn af föstu liðunum okkar. Í dag höfðum við hann úti enda einstaklega fallegt veður. Við fórum allar niður í laut á tásunum og þar tók við smá morgunleikfimi, æfing í því að veita athygli, kyrra hugann, hlusta á náttúruhljóð og margt, margt fleira. Efnið í dag var náttúran og sköpunin og hversu stórkosleg hún er. Stelpurnar tóku virkan þátt og tjáðu sig hver og ein um það sem þeim finnst magnaðast við náttúruna. Þar komu mörg gullkornin 😉
Nú eru stelpurnar úti í brennó og síðan verður hádegismatur en í matinn eru kjúklingalæri og kartöflbátar. Eftir hádegi er stefnt á að fara niður að læk að vaða í góða veðrinu.
Fleiri fréttir koma svo á morgun!
Kær kveðja úr Ölveri
Erla Björg forstöðukona