Í gær var þemadagur hjá okkur í Ölveri og var þemað kærleikur. Eftir hádegi fengu stelpurnar að velja sér hóp til að vera í. Hóparnir voru dans,-söng,-leiklistar- og bænakósýhópur. Þær æfðu atriðin sem þær sýndu á kærleiksstund sem haldin var fyrir kaffi. Ég átti ekki til orð og var með gæsahúð allan tímann. Þvílíkir hæfileikar, dansinn var frábær, sönghópurinn söng gospellag í röddum og leiklistarhópurinn samdi leikþátt út frá sögunni um Miskunnsama Samverjann. Bænahópurinn bjó til bænir sem þær lásu upp á einlægan hátt og höfðu líka búið til kókoskúlur handa öllum inn í eldhúsi. Ég leyfi mér að láta bæn frá einni 10 ára fylgja:
Drottinn minn
Viltu hjálpa mér á erfiðum tímum þegar ég þarfnast þín mest.
Viltu elska mig án skilyrða, því ég elska þig á móti.
Náttúran stjórnast af þínum völdum, fuglar syngja lofsöngva til þín, trén dansa til þín
en ég bið til þín.
Eftir stundina var dreginn leynivinur og stendur sá leikur yfir næstu tvo dagana.
Eftir kaffi var farið í heita pottinn en veðrið var dásmlegt og hiti mjög mikill. Í kvöldmatinn var steiktur fiskur og þær borðuðu einstaklega vel. Kvöldvakan var í boði Lindavers og sýndu þær leikrit og leiki. Eftir kvöldvöku var svo óvænt kaffihúsakvöld þar sem þær fengu vöfflur og kókoskúlur og hlustuðu á lifandi tónlist (það vantar ekki hæfileikana hjá starfsfólkinu heldur!)
Þær sofnuðu svo glaðar eftir góðan dag. Í dag hafa þær borðað morgunmat, hyllt fánann og farið á Biblíulestur þar sem þær lærðu dæmisögu Jesú um talenturnar, eða styrkleika okkar og hvernig við getum látið þá blómstra.
Nú eru þær í brennó og eiga skemmtilegan dag í vændum 😉
Kær kveðja frá okkur úr Ölveri.