Nú er veisludagur á enda og búið að vera mikið stuð hér á bæ. Eftir hádegismat fórum við í svokallaðan „Ævintýragang“ þar sem stelpurnar eru leiddar inní ævintýraheim sem er í senn pínu hrikalegur en líka spennandi og skemmtilegur. Þar mættu þær ógnvekjandi sjóræningja, norn, Garðabrúðu og jólatré sem þær þurftu að ganga í kringum. Allar komust þó heilar á húfi í gegn og höfðu gaman af.
Eftir kaffi var heiti pottur og punt fyrir veislumáltíðina sem var hamborgi, franskar og gos. Þá uppljóstruðu þær hver var leynivinur þeirra og fengu síðan allar frostpinna í eftirrétt. Þá hófst kvöldvakan þar sem foringjarnir sýndu hvert leikritið á fætur öðru við mikinn fögnuð. Í lok kvöldvökunnar var Ölverslagið í ár sungið en það er saminn nýr texti (oftast við nýjasta eurovisionlagið) á hverju ári sem stelpurnar syngja saman í lok hverrar viku.
Nú eru bænakonurnar inni á herbergjunum og ró að færast yfir húsið.
Á morgun verður síðasta morgunstundin okkar og foringjabrennó þar sem vinningsliðið í brennó keppir við foringjana. Í hádegismat verður grjónagrautur og síðan verur lokastund þar sem veitt eru verðlaun fyrir það sem fram hefur farið í vikunni.
Rútan leggur af stað héðan kl.15 og verður komin niður á Holtaveg kl.16.
Við þökkum hjartanlega fyrir okkur og vonandi eigum við eftir að sjá stelpurnar ykkar aftur á næsta ári.
Kær kveðja frá starfsfólki Ölvers.