Héðan er allt mjög gott að frétta. Flokkurinn hefur farið mjög vel af stað enda einstaklega flottur hópur sem við fengum hingað uppeftir til okkar.
Í gær þegar allir voru búnir að koma sér vel fyrir var farið í könnunarleiðangur um svæðið og það sem það hefur uppá að bjóða skoðað. Þá var farið í leiki til að hrista hópinn saman og til að kynnast betur. Í hádegismatinn var skyr og brauð. Eftir kaffi var farið í brennó en brennó er ómissandi þáttur í starfi Ölvers. Stelpunum var skipt upp í nokkur lið sem heita eftir vinsælu íslensku nammi 😉 Munu þær keppa á hverjum degi og loks mun vinningsliðið mæta foringjunum. Þá var farið í leiki og boðið uppá kósýstund og vinabandagerð.
Eftir kvöldmat sem var steiktur fiskur, kartöflubátar og salat var kvöldvaka í boði foringjanna sem sýndu leikrit og voru með leiki. Eftir hana hófst leit að náttbuxum bænakonanna. Stelpurnar fengu vísbendingar og þurftu að hlaupa út á náttfötunum og finna sína réttu buxurnar og máta þær síðan við rétta foringjann. Hvert herbergi er með sérstaka bænakonu sem kemur inn á herbergi hverju kvöldi og spjallar við stelpurnar og biður með þeim kvöldbænirnar.
Ró var komin á um miðnætti.
Í dag hófst dagurinn á morgunverði og fánahyllingu en síðan var blásið á Biblíulestur sem er einn af föstu liðunum okkar. Í dag var fjallað um það hvað felst í því að vera ljós og að byggja líf sitt á góðum grunni og gildum. Stelpurnar tóku virkan þátt og tjáðu sig um hvað þeim finnst einkenna kærleiksríka og góða manneskju.
Eftir morgunstundina var í brennó og síðan var hádegismatur en í matinn var grænmetislasagne og hvítlauksbrauð. Nú eru þær lagðar af stað niður að á í góða veðrinu þar sem þær ætla að vaða og njóta fallegu náttúrinnar sem hér er í kring. Eftir kaffitímann verður svo farið í pottinn.
Kær kveðja úr Ölveri
Erla Björg forstöðukona