Dagurinn í gær var dásamlegur og veðrið lék við okkur. Eftir hádegið var farið í góða gönguferð sem endaði niðri við Hafnará þar sem stelpurnar fóru að vaða og drukku kaffið við ána. Seinnipartinn skelltu svo flestar stelpurnar sér í pottinn. Í kvöldmatinn var pastasalat og borðuðu þær mjög vel eftir langan og heitan dag.
Kvöldvakan var frábær og þar sáu tvö herbergi um að skemmta okkur með leikjum og leikritum. Eftir kvöldvökuna var „movie night“ þar sem þær lágu á flatsæng, horfðu á kvikmynd og borðuðu popp.
Ró var komin um miðnætti. Mikið logn var og heitt svo ekki svo elskulega lúsmýið var að hrella okkur aðeins en bitin eru samt sem betur fer ekki svo mörg og stelpurnar kvarta lítið. Þetta er víst eitthvað sem við verðum að læra að lifa með.
Dagurinn í dag byrjaði á morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri þar sem þær lærðu dæmisöguna um Talenturnar og mikilvægi þess að leyfa hæfileikum sínum og góðum eiginleikum að blómstra. Einnig töluðum við um mikilvægi þess að bera sig ekki saman við aðra heldur að vera bestur í því að vera maður sjálfur eins og eins stelpan orðaði það 😉
Nú eru þær úti í brennóbolta og svo er komið að hádegisverði. Eftir hádegi er svo von á fleiri ævintýrum þar sem við kíkjum m.a inn í ævintýraheim þar sem þær hitta fyrir ýmsar skrítnar verur. Meira um það á morgun…..
Kær kveðja frá okkur úr Ölveri