Það var mikið um að vera hjá okkur í gær! Eftir hádegismat fóru stelpurnar út í ratleik um fallega svæðið okkar en þeim var skipt í lið eftir herbergjum, voru því 6-9 saman í liði. Það reyndi mikið á sjálfstæði og samvinnu í hópunum og á tíma var þetta heilmikil áskorun fyrir þær. Allar skiluðu þær sér í mark og þá flestar orðnar léttvotar eftir áskorun og framlag veðurguðanna til leiksins.

Eftir að öll lið höfðu skilað sér í hús var stelpunum safnað saman inn í matsal þar sem þær fengu tíma til að ná sér aðeins niður eftir ratleikinn og næra sig fyrir það sem koma skildi. Það vakti athygli þeirra að færri starfsmenn voru á ferðinni í húsinu en vanalega ásamt því að lokað var inn í matsal og öll önnur herbergi í húsinu. Höfðu foringjarnir kannski bara sent þær í ratleik svo þær gætu lagt sig inni á meðan? Aldeilis ekki…. Húsinu hafði verið breytt í ævintýraland og var að finna fimm (5) ævintýri í herbergjum hússins, m.a. þyrnirós, jólin, sjóræningja og dularfulla norn. Stelpurnar útbjuggu vegabréf til þess að komast inn í ævintýraheiminn og voru svo leiddar úr einu herbergi í annað.

Dagskráin hélt svo áfram með hefðbundnu sniði eftir ævintýralandið, heitur pottur, kvöldmatur, kvöldvaka og kvöldkaffi.

Þegar stelpurnar voru búnar að bursta og pissa og allar búnar að gera sig klárar fyrir draumalandið fór allt á fullt í húsinu aftur þar sem komið var að NÁTTFATAPARTÝI!

Dagurinn í gær var því stútfullur af fjöri og gleði og stelpurnar því fljótar að sofna þegar starfsmenn kölluðu eftir ró í húsinu.

Íþróttahúsið okkar ákvað svo að stríða okkur aðeins þegar það sendi brunaboð kl. 4:30 í nótt og brunabjallan fór af stað í húsinu. Þrátt fyrir að vera örlítið ringlaðar að þá stóðu stelpurnar sig eins og HETJUR og fylgdu starfsmönnum í einu og öllu – húsið var því tæmt á mettíma. Enginn eldur og allir heilir aftur að sofa! Stelpurnar fengu því að sofa út í morgun og fengu auka stig á hegðunartöfluna fyrir það hvað þær stóðu sig vel í nótt!

 

-Starfsfólk Ölvers

 

Hádegismatur: Fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósa
Kaffi: Sjónvarpskaka og kanillengjur
Kvöldmatur: Kjúklingaréttur
Kvöldkaffi: Bananar, epli, perur og appelsínur
Náttfatapartý: Íspinni