Við vöknuðum upp við enn einn sólríkan og fallegan dag 😊 Morgunmatur, fánahylling og biblíulestur voru á sínum stað og zumbadans í lautinni 😉 Í hádegismat voru kjötbollur með kartöflumús og brúnni sósu, nammi namm!
Eftir hádegi var hópnum skipt í þrennt og skiptust þær á að fara á þrjár mismunandi stöðvar – málað frá hjartanu um upplifunina hingað til, gagnræður þar sem tekin var fyrir spurningin „hvað það er að elska sjálfan sig“ og þriðja stöðin var slackline þar sem stelpurnar gengu á línu í lausu lofti þar sem reyndi á einbeitingu, þor og styrk.
Eftir kaffi kláraðist hópastarfið og stelpurnr fóru í heita pottinn og tvö herbergi æfðu leikrit fyrir kvöldið. Stelpurnar eru ótrúlega duglegar að leika sér úti og eiga það til að koma seint inn í mat eða dagskrá þar sem þær gleyma sér út í náttúrinni og „týnast“ út í skógi sem er bara æðislegt. Ein sagði i gagnræðunum í dag að hún elskaði frjálsa tímann þar sem hún fær bara að vera út í náttúrunni og hún fyndi fyrir svo miklu frelsi 😉 Þessar stelpur eru einstakar og það hefur myndast svo falleg stemmning í hópnum og góð vinátta.
Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk og brauð með áleggi. Þær borðuðu mjög vel enda ekta súkkulaðispænir út í 😉 Á kvöldvökunni var mikið stuð og skemmtum við okkur konunglega yfir leikritum og leikjum. Í lok kvöldvökunnar fengum við óvænt skilaboð frá eldhúsdömunum. Þær hringdu í okkur í gegnum skype og tilkynntu okkur að þær væru staddar úti við aparólu að éta grillaða sykurpúða og að stelpunar yrðu að koma áður en þær myndu klára þá allar sjálfar. Það var rosalega mikið rok úti svo við fórum nú fljótlega inn en þá beið okkar tónlist í botni og blásið var í náttfatapartý. Nú eru allir sofnaðir sælir á sínum kodda eftir frábæran dag.