Í morgun fengu stelpurnar að sofa svolítið lengur og var það kærkomið því það er búið að vera mjög mikið um að vera. Þær fóru síðan í morgunverð, hylltu fánann og fóru svo á biblíulestur sem var með frekar óhefðbundnu sniði en þær fræddust um femínisma og jafnrétti. Eftir hádegismat sem var ljúffengt lasagne fóru þær aftur í hópa þar sem þær máluðu frá hjartanu (það var magnað að hlusta þær túlka myndirnar sínar), fóru í gagnræður og hláturyoga.
Eftir kaffitímann var dekurstund og slökun þar sem þær fengu maska, gúrku á augun og puntuðu sig fyrir kvöldið. Einnig fóru flestar í heita pottinn. Í kvöldmat var svo pizza og ís í eftirrétt. Þá hófst frábær kvöldvaka í boði foringjanna sem reiddu hvert leikritið fram af öðru við mikinn fögnuð stelpnanna. Það tók smá tíma að ná þeim niður í kvöld enda búið að vera svaka stuð en þær sofnuðu allar sáttar og sælar um miðnætti.
Á morgun er heimferðardagurinn. Morguninn verður hefðbundinn og munum við byrja að pakka niður eftir morgunmatinn. Þá verður keppt við foringjana í brennó en mikil hefð er fyrir brennókeppni í Ölveri. Þetta verður reyndar fyrsti brennóleikur vikunnar þar sem við ákváðum að hafa engar keppnir í þessum flokki, nóg er um þær annars staðar. Þær keppast aðeins um að vera nákvæmlega þær sjálfar 😉
Kl.14 verður svo lokastund þar sem þær fá viðurkenningu og við kveðjumst eftir algjörlega einstaka og frábæra viku.
Rútan verður komin á Holtaveg um kl.16.
Hjartans kveðja frá okkur úr Ölveri.