Það var fallegur dagur hjá okkur í dag, sólin ákvað að vera með okkur í dag og fylla aðeins á D-vitamin tankinn hjá stelpunum.

Dagurinn byrjaði með hefðbundnum hætti en stelpurnar voru vaktar með glaðlegri tónlist og voru því fljótar að bursta og græja sig fyrir daginn. Þegar allir voru klæddir og tilbúnir var blásið í morgunmat. Eftir morgunmat og fánahyllingu tóku stelpurnar til í herbergjunum sínum og bjuggu um rúmin sín. Næst tók svo við morgunstund þar sem stelpurnar syngja saman og heyra uppbyggilega og gagnlega sögu. Strax eftir morgunstund fóru stelpurnar í brennó en hér er keppt í brennó alla morgna. Stelpunum er skipt, þvert á flokkinn, í sex (6) lið sem heita í þetta skiptið í höfuðið á foringjum flokksins.

Fljótlega eftir brennó var blásið í lúðurinn og komið að hádegismat (steiktur fiskur). Eftir hádegismat var ákveðið að nýta gulu geislana af efri hæðinni og fara með stelpurnar í göngu. Flokkurinn gekk að litlum fossi hér rétt fyrir utan svæðið okkar og voru allir sammála um að þetta væri algjör náttúruperla. Hópurinn fékk svo smá næringu áður haldið var aftur upp í Ölver.

Þegar heim var komið var frjáls tími þar sem stelpunum gafst færi á að fara í heita pottinn og/eða sturtu fram að kvöldmat (grillaðar pylsur).

Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem hluti af stelpunum sá um að sýna leikrit og vera með leik fyrir hinar í flokknum, mikið hlegið og greinilegt að hér eru skemmtilegar og hressar stelpur á ferðinni. Á miðri kvöldvöku birtust svo tveir vel klæddir starfsmenn sem hentu í stuttan leikþátt. Leikþátturinn endaði á því að þær buðu stelpunum öllum með sér niður að aparólu að grilla sykurpúða.

Við áttum afar notalega stund saman við aparóluna þar sem við sungum saman, borðuðum grillaða sykurpúða og fengum kvöldkaffi (ávexti). Hér fóru því allir alsælir og brosandi að sofa.

 

Sólarkveðja úr Ölveri
-Forstöðukona-