Veisludagurinn okkar var frábær eins og allir dagarnir okkar hér í sumarbúðarlífinu. Dagurinn hófst á hefðbundinn hátt á morgunmat, fánahyllingu og tiltekt og síðan var haldin morgunstund þar sem stelpurnar fengu að heyra dæmisöguna um sáðmanninn, stunduðu kyrrðarbænina og sungu fallega söngva. Áhersla stundarinnar var að við megum allar taka pláss, leyfa rödd okkar að heyrast og hversu mikilvægt er að byggja líf sitt á góðum grunni, góðu sjálfstrausti, fallegum gildum og innri styrk og leyfa hvorki öðrum né okkar eigin hugsunum að brjóta okkur niður. Ef við gerum þetta erum við eins og lítið fræ sem vex upp og verður að fallegu tré sem blómstrar, ber ávöxt og hefur góð áhrif á alla í kringum sig.
Eftir morgunstundina fóru stelpurnar í skemmtilegan ratleik um svæðið þar sem þær svöruðu ýmsum spurningum og bjuggu m.a til ljóð um Ölver og brandara um bænakonuna sína. Þarna reyndi á samvinnu og góð samskipti. Í hádegismat var grjónagrautur sem þær borðuðu með bestu lyst. Eftir hádegi var svo hæfileikasýning þar sem stelpurnar fóru á kostum.
Eftir kaffitímann var slökun, málning og pottur og allar gerðu sig fínar fyrir veislumatinn. Í kvöldmat var pizza og svo var haldið á veilsukvöldvöku þar sem starfsfólkið sýndi leikrit við mikla gleði.
Allir fóru sáttir að sofa eftir frábæran og viðburðarríkan dag.
Í dag var svo heimfarardagur sem hófst á hefðbundin hátt og stelpurnar pökkuðu niður. Á morgunstundinni fórum við yfir hvað þær tækju með sér heim og komu þessi orð og setningar upp sem vermdu hjarta okkar: Meira sjálfstraust, gleði og hamingju, traust, frelsi, að njóta náttúrinnar, hugrekki, ást og kærleik, meiri traust á Guði, að gefa Guði tíma í annríki dagsins, að vera maður sjálfur, sjálfstæði, þor, nýja vini og margt, margt fleira. Síðan var farið í brennó þar sem starfsfólkið keppti við stelpurnar. Í hádeginu voru grillaðar pylsur, sólin skein og síðast en ekki síst var haldin loka-og kveðjustund þar sem stelpurnar fengu viðurkenningu fyrir þátttöku í fókusflokki 2018 .
Það er von okkar að stelpurnar komi ríkari heim og biðjum við Guð að blessa þær allar.
Hjartan þakkir fyrir samveruna
Kærleikskveðja frá starfsfólki Fókusflokks <3