Þegar stúlkurnar vöknuðu í morgun var það dásamlegt veður sem tók á móti þeim inn í daginn. Eftir hefðbundinn morgun með fánahyllingu, tiltekt og brennó var blásið í hádegismat. Boðið var upp á dásamlega góðan steiktan fisk. Eftir mat var hinn sívinsæli ævintýragangur, sem stúlkurnar hittu hinar ýmsu persónur úr Harry Potter. Skemmtu þær sér konunglega og var mikið skrækt og hlegið. Kryddbrauð og karamellulengjur runnu ljúflega niður í kaffi. Leynivinaleikur hófst eftir kaffitímann og fóru stúlkurnar allar að gera gjafir fyrir sína vinkonu, eina fyrir hvern dag sem eftir er af flokknum.
Eftir kvöldmat var að vanda kvöldvaka voru það Hlíðarver og Hamraver sem sáu um skemmtiatriði kvöldsins. Þegar kvöldvökunni var alveg að ljúka mætti sjálfur Harry Potter og tilkynnti að Vitsugurnar væru mættar á svæðið og stúlkurnar yrðu að hjálpa honum að sigrast á þeim. Enn fleiri persónur úr Harry Potter ævintýrinu komu á svæðið og hlaupið var um allt svæðið í þessum skemmtilega leik.
Þreyttar, sælar og dásamlegar stúlkur sofnuðu eftir fjörugan dag.
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157699591509634/