Í gær var veisludagur. Við byrjuðum daginn eins og vanalega með hafragraut og morgunkorni, fánahyllingu og morgustund. Þar töluðum við um kærleikann, að við eigum að vera góð við alla, sýna öllum virðingu og kærleika. Í framhaldi af því fengu þær að sjá myndir frá verkefninu “Jól í skókassa” (sjá kfum.is) sem í raun snýst um að sýna öðrum kærleika. Þær voru áhugasamar og fannst gaman að sjá myndir af börnum í Úkraínu með gjafir frá Íslandi.
Síðan var brennókeppnin á sínum stað, hádegismatur sem í boði voru fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósa. Eftir matinn var hárgreiðslukeppni þar sem stelpurnar gerðu hinar fínustu greiðslur í hvor aðra. Eftir hana var gott að verðlauna sig með brauðbollum og jógúrtköku í kaffitímanum.
Þá fór að koma að veisluhöldunum, hoppukastalinn var settur af stað og heiti potturinn. Eftir að hvert herbergi var búið í pottinum áttu þær að klæða sig í betri fötin sín og svo voru þær allar greiddar fínt. Búið var að breyta matsalunum í fínan veitingastað og breyta sætaröðinni og svo var þeim þjónað til borðs, fengu þær gómsætar pizzur. Eftir matinn var foringjakvöldvakan þá voru foringjarnir með leikrit sem stelpunum þótti sérstaklega skemmtilegt. Mikið sungið og mikið hlegið. Að venju er lokakvöldvakan aðeins lengri svo stelpurnar fóru seinna í ból en vanalega en að lokum komst kyrrð á og allar sofnuðu sælar eftir góðan dag.
Í dag er brottfarardagur, stelpurnar voru vaktar klukkan níu í morgun, nú eru þær að pakka niður áður en morgunstundin verður og brennókeppni á móti foringjunum, það verður spennandi. Síðan verður hádegismatur og lokastundin áður en haldið er í rútuna heimleiðis.
Við þökkum ykkur öllum fyrir að treysta okkur fyrir gullmonunum ykkar, þið eigið yndislegar stelpur sem við erum glaðar að hafa fengið að kynnast.
Hlökkum til að sjá ykkur á eftir
bestu kveðjur,
Mjöll, forstöðukona