Dagur 1 (mán – 1.7.19)
48 spenntar stelpur komu uppí Ölver í dag og komu sér fyrir í 6-9 manna herbergjum. Allar vinkonur fengu að vera saman í herbergi. Í hádegismatinn var skyr og brauð. Eftir mat var gönguferð um staðinn, hann kynntur og farinn nafnahringur. Þá var þeim líka kennt brennó. Í kaffinu voru svo brauðbollur, kex og bananar. Svo voru Ölversleikar sem vöktu mikla lukku. Var þá hvert herbergi saman í liði og fóru á stöðvar þar sem voru skemmtilegar, mismunandi þrautir, t.d. rúsínuspýtt, stígvélaspark, ljóðakeppni, boðhlaup, grettukeppni ofl. Í kvöldmatinn var fiskur í raspi með kartöflum. Eftir mat var svo kvöldvaka. Þá var eitt herbergi búið að æfa leikrit og sýndi fyrir alla. Öll herbergi fá að gera leikrit, strax komin spenna og byrjað að plana hlutverk og búninga. Lúsmýið hefur ekki enn látið sjá sig, þær geta verið soldið óútreiknanlegar. (7-9-13) Stelpurnar eru samt allar hver annarri viðbúnari, margar með sprey og lavender oþh. Mjög góð lykt í húsinu .. ..
Eftir kvöldvöku leitaði hvert herbergi að sinni bænakonu. Þær voru búnar að fela sig inní skógi í búningum, mikið sport. Bænakona hvers herbergis sér um sínar stelpur, er þeirra go-to manneskja og kemur þeim í ró á kvöldin. Svæfing gekk vel, lítið um heimþrá enda þreyttar eftir viðburðaríkan dag.