Hér voru allir vaknaðir um kl. 9:00 í gærmorgun og var morguninn með frekar hefðbundnu sniði, morgunmatur, tiltekt, morgunstund og brennó. Á morgunstundinni lærðu stelpurnar meðal annars stafrófið í íslensku táknmáli og geta þær núna flestar ef ekki allar stafað nafnið sitt á táknmáli, sagt góðan dag og takk fyrir, svo fátt eitt sé nefnt.
Eftir hádegismat
fóru hópurinn í gönguferð niður að á þar sem stelpurnar fengu að vaða og baða
sig í ánni sem og tína ber og njóta sólarinnar. Þar sem veðrið var svo gott var
ákveðið að hafa kaffitímann úti í sólinni og fara í nokkra leiki á leiðinni
aftur upp í Ölver.
Þegar hópurinn var kominn aftur upp í hús tók við léttur leiklistartími þar sem
öllum var úthlutað hlutverk. Hver og einn fékk nafn og starfsheiti til að vinna
út frá. Verkefnið var svo að setja sig inn í hlutverkið og búa til stutta
baksögu um sína persónu, farið var í ýmsa leiki og æfingar til að koma hópnum
af stað með verkefnið.
Eftir kvöldmat þegar það var blásið til
kvöldvöku var búið að breyta kvöldvökusalnum og stelpurnar sáu fljótt að það
var ekki hefðbundinn kvöldvaka sem beið þeirra… það var komið að því að nota
og leika sér aðeins með persónurnar sem þær höfðu skapað fyrr um daginn.
Hópurinn fór því næst í leik sem er kallaður „Varúlfur“ en leikurinn reynir
mikið á sköpun og samvinnu hópsins. Eftir leikinn var orðið frekar heitt og
þungt loft inni í kvöldvökusalnum og var því ákveðið að klára kvöldvökuna niðri
við aparólu undir berum himni. Þegar stelpurnar voru búnar að koma sér fyrir
við aparóluna og sögustund hafin tók hópurinn eftir því að það var ekki alveg
allt eins og það átti að vera, það voru bara tveir starfsmenn sjáanlegir og
þeir voru ennþá í búning… var kannski ekki allt búið ennþá? Allt í einu
birtust svo ævintýraverur úr skóginum og þær sem hafa komið áður voru fljótar
að átta sig á því hvaða leikur var að hefjast… „Hungurleikarnir“ höfðu verið
færðir í nýjan búning! Búið var að útbúa framhald af Varúlfsleiknum í formi
Hungurleika. Leikurinn reynir fyrst og fremst á samvinnu stelpnanna en þær
þurfa að leysa hin ýmsu verkefni í skóginum og hitta hinar ýmsu persónur á
leiðinni. Markmið leiksins er að allur hópurinn skili sér í mark og að þær
hjálpist að við að leysa ráðgátuna sem er sett fram í upphafssögu leiksins.
Stelpurnar leystu þrautirnar og leikinn með prýði í kvöldsólinni og komu svo
inn í kvöldkaffi. Þær voru þreyttar eftir leikinn og voru því fljótar að hátta,
þegar allar voru komnar upp í sitt rúm og undir sæng opnaði starfsfólkið inn í
öll herbergi, settist á ganginn og söng.
Kveðja úr Ölverssólinni
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur:
Hafragrautur, morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Lasagne og salat / Vorrúllur og salat
Kaffi: Pizzasnúðar, jógúrtkaka og djús
Kvöldmatur: Skyr, fersk ber, jarðaberjagrautur, og brauð
Kvöldkaffi: Kex