Ölversmeyjarnar okkar fengur að sofa út í dag, því var engin formleg vakning heldur fengu stelpurnar að vakna sjálfar þegar lífið fór hægt og rólega að kvikna í húsinu. Þær sem sváfu lengst voru að vakna upp úr kl. 11:00. Stelpurnar voru þreyttar eftir langan og ævintýralegan gærdag og fannst því rosalega gott að fá að sofa aðeins lengur.
Hefðbundinn dagskrá hófst um kl. 11:30 með þriðju umferð í brennókeppni flokksins en eftir hana voru stelpurnar sendar inn að taka til í herbergjunum sínum og búa um rúmin sín.
Eftir hádegismat var hengdur upp listi með því sem stelpurnar þurftu að pakka í tösku fyrir ÓVISSUFERÐ. Sumt á listanum fannst stelpunum heldur skrítið en létu það þó ekki á sig fá og fylgdu fyrirmælum starfsfólksins í einu og öllu. Rútan mætti svo á svæðið að sækja hópinn kl. 14:00 og brunaði með okkur á Akranes þar sem við byrjuðum á því að fara niður á Langasand að leika smá og fórum svo í sundlaugina á Akranesi. Þær sem vildu ekki fara í sund fóru í Kubb og fleiri leiki á leiksvæði fyrir neðan sundlaugina. Eftir sundið voru allir orðnir rosalega svangir og var því ákveðið að taka kaffitímann úti á grasinu hjá sundlauginni. Rútan skilaði okkur svo heim í Ölver um kl. 18:00.
Eftir kvöldmat var hefbundin kvöldvaka þar sem Hlíðarver sá um skemmtiatriði en þær voru bæði með leikrit og leik. Eftir kvöldvöku fóru stelpurnar í kvöldkaffi og áttu svo að hátta, bursta og pissa. Það var mikið stuð í hópnum sem hentaði starfsfólkinu vel þar sem það var komið að því að henda í NÁTTFATAPARTÝ. Það var mikið dansað og mikið hlegið og fóru stelpurnar því mjög sáttar að sofa.
Sólríkur og ævintýralegur dagur á enda hér í Ölveri.
Ölverskveðja
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Morgunkorn
og súrmjólk
Hádegismatur: Kjúklingaleggir, kartöflubátar og salat
Kaffi: Skinkuhorn og bollakökur
Kvöldmatur: Grjónagrautur
Kvöldkaffi: Bananabrauð