29. júlí 2019.
Skemmtilegar stelpur mættu með mér og foringjum flokksins í rútuna í morgun að Holtavegi og ferðin uppeftir var glaðvær, í boði var að syngja alla leiðina eða vera skemmtilegar og þessu fóru þær sannarlega eftir, en sátu samt einnig sem stilltastar í rútunni.
Þegar komið var uppeftir voru töskurnar bornar inn og allir settust síðan saman inn í matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og farið var yfir helstu atriði. Þá var stelpunum skipt niður í herbergi og var þeim deilt niður í 5 herbergi sem heita; Fuglaver, Fjallaver, Hlíðaver, Lindaver og Skógarver. Þær sóttu síðan farangurinn sinn og komu sér fyrir. Þá var blásið í hádegismat, og var skyr og brauð með áleggi á boðstólnum, sem rann ljúft niður. Eftir matinn fóru þær í göngutúr um svæðið en stoppað var á leiðinni og farið í ýmsa útileiki.
Kl. 16 var síðan drekkutími og ekki var hægt að fara inn til þess, veðrið bauð upp á útiveru og því borðuðu stelpurnar nýbakaðar kökur og drukku djús með úti í sólinni. Eftir kaffi var farið í vatnsslag, stelpurnar tóku fram sundbolina sína og svo var hoppukastalinn sem er á svæðinu settur í gang. Mikið fjör í alveg yndislegu veðri. Eftir dágóða langa útiveru fóru stelpurnar í íþróttasalinn þar sem foringjarnir kynntu brennó og fóru í nokkra leiki með stelpunum. Allar voru þær með í þessu og fylgdust spenntar með.
Í kvöldmat var dýrindis grænmetisbuff með cuscus, eftir það kvöldvaka þar sem tvö herbergi sýndu leikrit og fóru í leiki. Einnig sýndu foringjarnir eitt leikrit. Mikið sungið og sögð saga er nefnist, Ég er frábær. Síðan var komið að kvöldkaffinu, eða eplabitum og vatnssopa og öllum sagt að fara að bursta tennur og fara í náttfötin. Skyndilega var svo blásið í lúðurinn og hófst Bænakonuleit, en veðrið bauð aldeilis upp á það, en hverju herbergi fylgir bænakona og aðstoðarkona bænarkonu sem hafa það hlutverk að hjálpa stelpunum við að koma sér í háttinn, lesa sögubrot, biðja kvöldbænir og sofna síðan.
Kl. 22. 30 var komin ró í húsinu og uppfrá því hófst kvöldstundin inni á herbergjunum. Allar virðast þær vera sofnaðar núna.
Þar til aftur á morgun,
kær kveðja Rósa, forstöðukona Krílaflokks.